Útlit er fyrir að gjaldfæra þurfi í rekstrarreikning ríkissjóðs skuldbindingu vegna svonefnds varúðarsjóðs fyrir lífeyrisaukasjóð A-deildar LSR miðað við áætlaða stöðu. Staða varúðarsjóðs í lok árs 2024 var 16 milljarðar króna að því er segir í nýrri fjármálaáætlun fyrir 2026-2030.

Þessi fyrirhugaða gjaldfærsla er sögð ein af þremur ástæðum fyrir því að útgjöld ríkissjóðs í ár samkvæmt fjármálaáætluninni aukast um 15 milljarða króna frá áætlun fjárlaga og verði um 1.498 milljarðar króna.

Umræddur varúðarsjóður var liður í lögfestu samkomulagi árið 2016 um uppgjör deildarinnar við umbreytingu hennar í sama horf lífeyrisréttinda og gildir hjá almennum lífeyrissjóðum.

„Um er að ræða flokk skuldabréfa sem ríkissjóður gaf út og afhenti LSR til varðveislu á þeim tíma. Varúðarsjóðnum var ætlað að vera baktrygging upp að ákveðnu marki fyrir skuldbindingum ríkissjóðs gagnvart tilgreindum skilyrðum í lögunum um tryggingafræðilegri stöðu lífeyrisaukasjóðs A-deildarinnar.“

Í samræmi við ákvæði laganna hefur sérstakur matshópur þessa stöðu til umfjöllunar.

Fjármálaráðuneytið segir að verði niðurstaðan sú að talið sé að umrædd skilyrði hafi nú virkjast er gert ráð fyrir að gjaldfæra þurfi þá ábyrgðarskuldbindingu sem fólst í skuldabréfum varúðarsjóðsins, í hluta eða heild, með sama hætti og áður hefur verið gert vegna annarra fjármuna sem ríkissjóður hefur lagt til lífeyrisaukasjóðs LSR.

Ríkissjóður lagði 107 milljarða króna í svokallaðan lífeyrisaukasjóð A-deildar LSR í tengslum við samkomulag um breytingu á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna árið 2016. Var það gert til að tryggja verðmæti réttinda sjóðfélaga sem þegar greiddu í sjóðinn eftir að lífeyrisréttindi voru samræmd á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Við ákvörðun framlagsins var litið til forsendna um lífslíkur, örorkulíkur, raunlaunahækkanir og brottfall framangreindra sjóðfélaga úr sjóðnum.

„Þar sem óhjákvæmilega ríkti óvissa um forsendur fjárhagslegs styrks lífeyrisaukasjóðs voru auk þess lagðar fram 8,4 milljarða króna í sérstakan varúðarsjóð.

Við tilteknar aðstæður, sem leiða af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrisaukasjóðs, skal leggja höfuðstól varúðarsjóðs við eignir lífeyrisaukasjóðs. Uppreiknuð staða varúðarsjóðs í árslok 2024 var 16 milljarðar króna,“ segir í fjármálaáætluninni.