Samkvæmt verðbólguspá Landsbankans verður ársverðbólga 3,2% janúar, ef kílómetragjaldið verður ekki tekið inn í verðbólgumælingu Hagstofunnar. Gangi það eftir yrði ársverðbólga hérlendis ekki mæld lægri síðan í ágúst 2020.
Greiningardeild bankans tekur þó fram að útfærsla á upptöku kílómetragjalds liggi ekki fyrir og því ekki ljóst hvort eða hvernig Hagstofan tekur tillit til þess í verðbólgumælingum.
Í janúar er áformað að taka upp kílómetragjald á allar tegundir bifreiða. Samhliða upptöku kílómetragjalds verða bensín- og olíugjöld felld niður, en á móti verða kolefnisgjöld hækkuð að einhverju marki.
Í spágreiningardeildar Íslandsbanka sem birtist einnig í morgun segir að breytingar gætu kippt verðbólgunni niður um 1,2% í janúar en samkvæmt bankanum væri enn mikil óvissa um það.
Ef kílómetragjaldið verður ekki tekið inn í mælinguna spáir Íslandsbanki 3,8% verðbólgu á ársgrundvelli í janúar.
„Áhrifin fara að öllum líkindum eftir flokkun kílómetragjaldsins en ef það verður eyrnamerkt samgönguframkvæmdum í fjárhag ríkissjóðs verða áhrifin lítil sem engin. Ef það verður hins vegar ekki eyrnamerkt, og meðhöndlað eins og hver annar beinn skattur af Hagstofunni, þá teljum við áhrifin á VNV verða veruleg,” segir í spá greiningardeildar Íslandsbanka.
Verðbólga 4,2% til 5% með gjaldinu
Samkvæmt lögum um opinber fjármál má þó ekki eyrnamerkja fjármuni lengur og því er ekki heimilt að vera með markaða tekjustofna.
Það veltur því allt á hvernig Hagstofan mun reikna kílómetragjaldið en sem fyrr segir liggur útfærslan ekki fyrir.
Landsbankinn spáir 4,2% verðbólgu og Íslandsbanki 5,0% verðbólgu í janúar sé gjaldið tekið inn í mælinguna.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Viðskiptablaðsins um áhrif kílómetragjaldsins á verðlag og skatta hér að neðan.