Hagnaður Eimskips fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi 2022 var á bilinu 37,2-38,7 milljónir evra, eða á bilinu 5,7-6,0 milljarðar króna á gengi dagsins, samkvæmt stjórnendauppgjöri. Flutningafélagið áætlar því að EBITDA-hagnaður hafi aukist um 18-23% frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 31,5 milljónum evra.
Eimskip áætlar að hagnaður fjórðungsins fyrir fjármagnsliði (EBIT) verði á bilinu 20,9-22,9 milljónir evra, eða 3,2-3,5 milljarðar króna, samanborið við 17,5 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2021.
„Þrátt fyrir hefðbundin árstíðaráhrif, var afkoma af alþjóðlegri starfsemi félagsins góð og nýting í siglingarkerfi félagsins var góð á fjórðungnum,“ segir í afkomuviðvörun Eimskips.
Félagið tekur fram að uppgjörið sé enn í vinnslu og niðurstöður geti því tekið breytingum fram að birtingu þann 14. febrúar næstkomandi.