Væntinga­vísi­tala Gallup (VVG) tók myndar­legan hækkunar­kipp í októ­ber en sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka er um mestu hækkun milli mánaða frá því að Gallup hóf að mæla VVG snemma árs 2001.

Októ­bergildi vísi­tölunnar er 90,9 sam­kvæmt ný­lega birtri mælingu Gallup og hækkaði VVG um tæp 30 stig frá septem­ber­mánuði eftir nær stöðuga lækkun frá árs­byrjun.

Hækkunin er al­menn í þeim undir­vísi­tölum sem mynda VVG en sér í lagi hækka þó væntingar til efna­hags- og at­vinnu­á­stands eftir sex mánuði mikið.

Sam­kvæmt Gallup, sem greiningar­deild Ís­lands­banka tekur undir, er afar lík­legt að stýri­vaxta­lækkun í mánaðar­byrjun leiki tals­vert hlut­verk í hækkun VVG.

„Raunar sýnist okkur vera allur gangur á því hvort vaxta­lækkun, sér í lagi við upp­haf lækkunar­ferlis, hafi haft um­tals­verð já­kvæð á­hrif á væntingar lands­manna frá því farið var að mæla VVG á árinu 2001. Þar þarf þó auð­vitað að taka til­lit til fjöl­margra annarra þátta á borð við á­stæður vaxta­lækkunar (vaxta­lækkun vegna t.d. heims­far­aldurs eða dökknandi efna­hags­horfa eftir fall WOW air var ekki lík­leg til að létta brún lands­manna) sem og hvort al­mennt var búist við lækkun vaxta eða ekki, að ó­gleymdu vaxta­stiginu sjálfu fyrir vaxta­lækkunina,“ skrifar Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka.

Greiningar­deildin segist greina al­mennt já­kvæðan tón í við­brögðum al­mennings sem og stjórn­enda fyrir­tækja við vaxta­lækkuninni í októ­ber­byrjun.

„Ekki síst vegna þess að væntingar um á­fram­haldandi lækkun vaxta á komandi fjórðungum virðast vera til­tölu­lega út­breiddar ef marka má t.d. vaxta­ferla á skulda­bréfa­markaði.“

Karlar bjart­sýnni en konur

Tals­verður munur var milli kynja í mælingu VVG milli mánaða sem greiningar­deild Ís­lands­banka segir að sé ekki ó­vana­legt.

Væntingar meðal karla skutust upp um rúm 40 stig milli mánaða og eru nú ei­lítið fleiri karlar bjart­sýnir á á­stand og horfur en svart­sýnir.

Meðal kvenna hækkuðu væntingarnar hins vegar um 14 stig og eru konur enn sem fyrr fremur svart­sýnar en bjart­sýnar í svörum sínum.

Ís­lands­banki bendir á að frá upp­hafi mælinga VVG hér á landi hafa konur einungis sjö sinnum mælst bjart­sýnni en karlarnir.

„Munurinn milli kynjanna er oftast minnstur þegar svart­sýni er al­menn hjá svar­endum en þegar betur árar virðast karlarnir fyllast bjart­sýni í meiri mæli en konurnar.“

Jón Bjarki skrifar í lok greiningar bankans að það verði for­vitni­legt að fylgjast með þróun VVG næstu mánuði en mælingin í októ­ber var til að mynda gerð fyrir stjórnar­slit.

„Væntan­lega mun kosninga­bar­áttan hafa ein­hver á­hrif á væntingar lands­manna en fyrri greining okkar benti til þess að VVG hækkaði yfir­leitt í að­draganda Al­þingis­kosninga og gátum við okkur þess til að kosninga­lof­orð fram­bjóð­enda ættu þar hluta að máli. Þá er lík­legt að næstu verð­bólgu­mælingar og vaxta­á­kvörðunin 20. nóvember hafi ein­hver á­hrif á bjart­sýni lands­manna, sér í lagi ef fram heldur sem horfir og bæði vextir og verð­bólga lækka á­fram til árs­loka. Það gæti svo stutt við einka­neyslu á loka­mánuðum ársins þar sem nokkur fylgni hefur oft verið á milli þróunar VVG og einka­neyslu lands­manna.“