Valentín Lago, fyrrum forstjóri spænska flugfélagsins Air Europa, mun taka sæti í stjórn flugfélagsins Play á næstu dögum. Valentín og fjórir sitjandi stjórnarmenn verða sjálfkjörnir á aðalfundi Play sem fer fram á þriðjudaginn, 7. mars.

Umræddir fjórir stjórnarmenn sem gáfu kost á sér til endurkjörs eru þau Einar Örn Ólafsson, Elías Skúli Skúlason, Guðný Hansdóttir og María Rúnarsdóttir. Auður Björk Guðmundsdóttir, sem hefur setið í stjórninni undanfarin tvö ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Í tilkynningu Play til Kauphallarinnar segir að Valentín Lago hafi þrjátíu ára reynslu af fluggeiranum. Hann var forstjóri spænska flugfélagsins Air Europa á árunum 2021-2022. Þá var hann framkvæmdastjóri rekstrar hjá Iberia Express, spænsks lágfargjaldaflugfélags í eigu IAG, á árunum 2011-2016. Hann gegndi sömu stöðu hjá spænska lágfargjaldaflugfélaginu Vueling, sem er einnig í eigu IAG, á árunum 2016-2019.

Valentín, sem rekur sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki í dag, stundaði nám við flugvélaverkfræði og er með doktorsgráðu í hagfræði.