Valhall er nýtt markþjálfunar-, fræðslu- og ráðgjafarfyrirtæki sem hefur nýlega flutt skrifstofur sínar á Lækjargötu 3 í sögufræga hvíta húsið sem liggur á milli Lækjarbrekku og gamla Humarhússins, sem í dag er rekið undir heitinu Torfan.

Ella Björnsdóttir, stofnandi og meðeigandi Valhalla, segir að það hafi verið skemmtilegt verkefni að umbreyta húsinu í samvinnu við eigendur og að mikill metnaður hafi verið lagður í að varðveita gamla stíl hússins.

„Við fórum óhefðbundnar leiðir og endurnýttum mikið af gömlum hlutum úr Góða hirðinum og fléttuðum þannig inn gamlan stíl í nútímaumhverfi á mjög hagkvæman hátt og útkoman er virkilega falleg,“ segir Ella.

Valhalla er ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að valdefla einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að hafa áhrif og skila árangri. Ella hefur áratuga reynslu í leiðtogamarkþjálfun, stjórnun fyrirtækja og hefur þá meðal annars haldið fyrirlestra í Mongólíu, Rúmeníu, Víetnam og Úganda.

„Í gegnum þessa upplifun mótaðist grunnurinn að hugmyndafræðinni sem Valhalla byggir á, sem er „Ég er af því við erum.“ Þetta sjónarmið undirstrikar mikilvægi samvinnu, samkenndar og sameiginlegs vaxtar, þar sem líðan fólks er samofin líðan annarra í nærumhverfinu.“

Um þessar mundir er hin svokallaða Aurora-leiðtogamarkþjálfun að hefja göngu sína en þar er sérsniðin heildstæð nálgun á einstaklinginn tekin fyrir og mun Ella sjá um að valdefla leiðtoga í 14 sérvöldum sætum fyrir árið 2025.

Vegferðin mun fara fram í nýjum húsakynnum Valhalla en Ella segist enn vera að vinna í að gera húsið enn hlýrra en það er nú þegar.

„Þetta hús er í hjarta Reykjavíkur og var meðal annars í eigu annars kaupmannsins Carl Franz Siemsen, sem jafnframt byggði húsið. Okkur finnst þetta ótrúlega flott tækifæri en hér erum við með fundaraðstöðu sem okkar kúnnar geta líka haft afnot af fyrir sína fundi.“

Hún segir að nýja húsið sé tilvalið fyrir starfsemi fyrirtækisins þar sem nafnið Valhalla og saga þess passi vel inn í sögu og anda Lækjargötu 3.

„Valhalla var þessi salur þar sem góðir menn tengjast og vaxa. Við viljum setja þessa umgjörð að hér sé sáttamiðlun, vöxtur og valdefling. Þú finnur það líka þegar þú gengur inn að hér er góður andi. Við höfum einnig lagt upp úr því að viðhalda heiðri hússins á lofti og leyfa því að geyma þann anda og sál sem þessi gömlu hús búa yfir.“