Indland og Bandaríkin segja að árangur sé að nást í samningaviðræðum um tvíhliða viðskiptasamning eftir fund Narendra Modi forsætisráðherra Indlands og JD Vance varaforseta Bandaríkjanna í Nýju Delí.

Þetta kemur fram á vef BBC en Vance er nú staddur á Indlandi í fjögurra daga heimsókn ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum.

Modi birti færslu á samfélagsmiðlinum X þar sem hann sagði að löndin væru staðráðin í að vinna saman á sviði viðskipta, tæknimála, varnarmála og orkumála. Hann bauð Vance og fjölskyldu hans meðal annars í kvöldverð í bústað forsætisráðherrans.

Indverjar áttu að sæta 27% innflutningstollum frá Bandaríkjunum áður en Trump ákvað að gera 90 daga hlé á fyrirhuguðu tollunum, hlé sem lýkur 9. júlí nk. Indland er þá meðal þeirra fjölda landa sem eru að leitast eftir viðskiptasamningi við Bandaríkin fyrir þann tíma.

Modi sagðist einnig hlakka til að bjóða Trump í heimsókn til Indlands síðar á þessu ári en leiðtogarnir tveir deila hlýju sambandi sín á milli. Modi var meðal fyrstu þjóðarleiðtoga til að heimsækja Trump eftir að hann tók við forsetaembættinu á ný og er Modi einnig kominn á samfélagsmiðil Donalds Trumps, Truth Social.