Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir stefnuleysi þegar kemur að smásölu áfengis. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark segir hann að Ölgerðin óttist ekki þann möguleika að rekstur ÁTVR verði lagður niður.
„Ég myndi bara fagna því að fá niðurstöðu í þetta mál í fyrsta lagi. Þetta er náttúrulega algjörlega fullkomlega galið að pólitíkin geti ekki tekið einhverja afstöðu í þessu máli. Þetta er vandræðalegt fyrir pólitíkina. Við tökum bara því sem að höndum ber,“ sagði Andri.
Hann sagði kallaði eftir að lagaumgjörðin verði betur skýrð og að „pólitíkin bara girði sig loksins í brók og taki ákvörðun“ í þessum málaflokki.
„Þetta er vandræðalegt fyrir pólitíkina að hérna geti alls kyns útfærslur af vefverslunum þrifist og enginn þori að taka á þessu. Þetta elur í raun og veru á virðingarleysi gagnvart lögum og reglum í landinu. Mér finnst þetta í raun og veru til skammar.“
„Þetta er svo galin fullyrðing“
Annar þáttastjórnanda nefndi að ýmsir aðilar hefðu talað með þeim hætti að það væri hentugra fyrir Ölgerðina að búa við óbreytt viðskiptaumhverfi með áframhaldandi rekstri ÁTVR.
„Ákveðnir aðilar hafa alltaf talað þannig eins og við séum áskrifendur að einhverjum hillumetrum hjá ÁTVR,“ sagði Andri.
„Ég get alveg sagt ykkur að það kemur ekkert ókeypis þar. Kerfið hjá ÁTVR er fullkomlega opið, það er fullkomin samkeppni. Það getur hver sem er byrjað að brugga bjór og fengið bjórinn sinn seldan í ÁTVR. Haldið þið að það verði staðreyndin í Bónus eða Krónunni? Haldið þið að hver sem er geti bara komið inn, byrjað að flytja inn bjór og bara værsgo, hér er hann og byrjað að selja hann.
Þetta er svo galin fullyrðing að við séum áskrifendur að einhverjum hillumetrum og að okkur líði rosalega vel í þessu umhverfi. Við bara spilum í því umhverfi sem okkur er skaffað. Ég bara kalla eftir því að þessi umgjörð, að hún verð skýrð og pólitíkin bara girði sig loksins í brók og taki ákvörðun. Þetta er galið eins og þetta er búið að vera.“
Vill lágmarka opinberan rekstur
Spurður um afstöðu sína sem formaður Viðskiptaráðs til tilvistar ÁTVR, þá sagðist Andri telja allan ríkisrekstur tímaskekkju.
„Sem formaður Viðskiptaráð og talsmaður einkaframtaksins þá vil ég að sjálfsögðu lágmarka allan opinberan rekstur. Við viljum bara fá samkeppni sem víðast, ekki bara í sölu á áfengi heldur líka víða annars staðar.“
Helsta áhættan tengd léttvíninu
Hvað varðar áhrif á rekstur Ölgerðarinnar ef ÁTVR verði lagt niður, þá sagði Andri það fara eftir vöruflokkum. Hann telur helstu neikvæðu áhrifin geta legið í léttvínum.
„Ef við erum að tala um t.d. léttvín þá myndi ég kannski frekar segja að það væri ógn vegna þess að ég held það verði meiri [tilhneiging] hjá stórmörkuðum að flytja sjálfir inn sín vín og reyna að byggja upp einhver vörumerki í vínum. En málið er að vörumerkjavitund í léttum vínum er ekki mjög mikil. Þið getið ekkert nefnt mýmörg dæmi um vörumerki.“
Andri sagði Ölgerðina hins vegar hafa breytt vöruúrvali sínu í léttvíni til að mæta þessum hugsanlegum áhrifum.
„Við erum búin að styrkja stöðu okkar mjög mikið á veitingahúsamarkaði með því að flytja inn vín sem eru eingöngu seld þar. […] Þannig að hlutfall léttvíns sem fer inn til veitingastaða er núna 65% af heildarsölu okkar á léttvíni, á meðan í bjór er þetta ekki nema 30%. Þannig að við erum búin að breyta [samsetningunni] vísvitandi til að lágmarka áhættuna ef þetta gerist.“
Í tilviki bjórsölu þá telur Andri að þar liggi tækifæri fyrir Ölgerðina ef ÁTVR verði lagt niður, þrátt fyrir sterka stöðu fyrirtækisins í Vínbúðunum.
„Tækifærið felst þá í því að í dag eru mörg hundruð tegundir af bjór í hillum verslananna, mörg hundruð vörunúmer. Staðreyndin er sú að kannski 20 stærstu vörumerkin eru með meira en 90% markaðshlutdeild. Þannig að það sem að gerist er að „Long Tail“ bjórmerkin, þau detta út af markaði og [hlutdeildin] mun þá flytjast yfir á þau stærstu.
Stórmarkaðirnir munu ekki vera með tuttugu vörumerki í bjór, þeir munu bara vera með þau allra stærstu. Við erum með sterkustu vörumerkin, við erum með fjóra af fimm söluhæstu bjórum landsins. Við erum með viðskiptasamböndin, við erum með mannaflann sem er í búðunum í gosinu að raða í hillur og sjá um framsetningar og annað slíkt. Þannig að ég held að við myndum bara snúa þessu upp í tækifæri.“
Andri segist ekki telja að ef svo vildi til að sala sterks áfengis verði leyft í stórmörkuðum, að það myndi hafa mikil áhrif á Ölgerðina. Fyrirtækið sé með rúmlega 30% hlutdeild á þessu sviði í ÁTVR. „Við erum með mörg af þekktustu vörumerkjum í heimi sem bara þurfa að vera í hillunum.“
Andri ræðir framtíð ÁTVR, möguleg áhrif breytts starfsumhverfis á rekstur Ölgerðarinnar og ákvörðunarfælni stjórnvalda frá 54:30-1:01:30.