Vanguard, næst stærsta eignastýringafyrirtæki heims er með um 7,1 þúsund milljarða dala í stýringu, tilkynnti í dag að það hefði ákveðið að falla frá Net Zero Asset Managers (NZAM) framtakinu, sem miðar að því að ná fram kolefnishlutleysi í eignum í stýringu fyrir árið 2050.

Vanguard er orðinn einn af stærstu aðilum íslenska hlutabréfamarkaðarins en Vanguard vísitölusjóðir hafa á síðustu mánuðum keypt hlutabréf í þeim fimmtán félögum Kauphallarinnar sem eru á lista FTSE Russell í flokki nýmarkaðsríkja. Vanguard er sem dæmi einn af tuttugu stærstu hluthöfum Arion banka með samtals 1,2% hlut.

Vanguard skráði sig í NZAM framtakið á síðasta ári og var meðal 291 aðila sem áttu aðild að samkomulaginu í nóvember síðastliðnum. Alls námu eignir í stýringu hjá aðilum að NZAM um 66 þúsund milljörðum dala.

Vanguard segir að aðildin NZAM hafi leitt til ruglings um viðhorf einstaka fjárfestingarfélaga, sérstaklega þegar kemur að innleiðingu stefnunnar í vísitölusjóðum sem fjárfesta á breiðu sviði og einblína á áhættudreifingu.

„Meira en 30 milljónir fjárfesta um heiminn hafa treyst Vanguard fyrir sparnaði sem þeir hafa unnið fyrir. Við höfum það eina markmið að hámarka langtímaávöxtun og veita þeim besta möguleikann á árangri í fjárfestingum er þeir spara fyrir ellilífeyri, menntun barna sinni, heimilið eða einfaldlega til að tryggja fjárhagslegt öryggi til framtíðar,“ segir í tilkynningu Vanguard.

Eignastýringarisinn segir að úrsögn hans úr NZAM breyti ekki skuldbindingu sinni til aðstoða fjárfesta að bregðast við áhættu sem stafar af loftslagsbreytingum.

Ákvörðun Vanguard kemur í kjölfar mótbyrs hjá stærstu eignastýringarfyrirtækjum heims vegna ESG-áherslna þeirra. Stjórnmálamenn úr röðum Repúblikana hafa gagnrýnt í síauknum mæli fjármálafyrirtæki vegna slíkra áherslna og hafa nokkur Repúblikanafylki innleitt lög til að sporna gegn því að dregið verði úr fjárfestingum í olíu- og gasfyrirtækjum.

Í umfjöllun Financial Times segir að fjármálastjóri Texas-fylkis hafi nýtt NZAM til að safna fjármálafyrirtækjum saman á lista yfir þau félög sem hann sakar um að sniðganga fyrirtæki á sviði jarðefnaeldsneytis.