Hrein ný íbúðalán frá bönkum til heimila námu 14 milljörðum króna í júnímánuði á meðan hrein ný íbúðalán frá lífeyrissjóðum til heimila námu 1,7 milljörðum, samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Samkvæmt skýrslunni sýnir lánamarkaðurinn fá merki um útbreidda greiðsluerfiðleika þar sem vanskil heimila eru lítil í sögulegu samhengi.
Greiðslubyrði margra heimila kemur hins vegar til með að þyngjast á næstu mánuðum þegar fjöldi samninga um fasta vexti íbúðalána rennur út.
Alls tóku heimilin ný verðtryggð lán að fjárhæð 28,9 milljarða króna í júní þar sem uppgreiðslur óverðtryggðra lána halda áfram.
Alls voru 14,1 milljarðar af óverðtryggðum lánum greidd upp í júní. Megnið af þeim eða 12,1 milljarður voru uppgreiðslur á lánum frá bönkunum.
Lífeyrissjóðirnir hófu mun síðar að bjóða upp á óverðtryggð lán og því er mun lægra hlutfall útistandandi íbúðalána óverðtryggt hjá lífeyrissjóðunum samanborið við hjá bönkunum.
Á fyrri helmingi þessa árs námu lán til heimila 65 milljörðum króna en árið 2023 námu lán til heimila alls 131 milljarði á föstu verðlagi.
„Um helmingi fleiri kaupsamningar voru gerðir á fyrri hluta þessa árs samanborið við árið í fyrra. Íbúðum í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð hefur fjölgað hraðar en íbúðum í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð síðustu misseri, líkt og kom fram í fasteignakafla skýrslunnar. Hafa verður í huga að útlán til þessara aðila eru ekki inni í framangreindum tölum. Þar að auki hafa uppkaup Fasteignafélagsins Þórkötlu áhrif til lækkunar á útlánum til heimila en á móti hafa lán til fyrirtækja í þjónustu tengdri fasteignafélögum aukist vegna Þórkötlu,“ segir í skýrslu HMS.
Heildarfjárhæð útistandandi lána til heimila nam samtals 2.674 milljörðum króna í júní.
Síðastliðna 12 mánuði hafa heildarútlán til heimila aukist um 1% að raunvirði. Frá miðju ári 2021 hafa heildarútlán þó haldist tiltölulega stöðug að raunvirði og 12 mánaða breyting sveiflast á milli -1,5% og 1%.
Síðustu tólf mánuði hefur fjárhæð nýrra verðtryggðra lána að jafnaði verið um tvöfalt hærri en fjárhæð uppgreiddra óverðtryggðra lána eða sem nemur 24 milljörðum á móti 12 milljarða uppgreiðslum óverðtryggðra lána.
„Viðbúið er að þessi þróun haldi áfram eða aukist en meirihluti óverðtryggðra lána á föstum vöxtum koma til endurskoðunar frá og með júlí á þessu ári til og með ágúst á næsta ári. Heimili með háa greiðslubyrði hafa fært sig yfir í verðtryggð lán undanfarið ár og munu þau væntanlega halda áfram að gera það í miklum mæli þegar til fyrrnefndrar endurskoðunar kemur vegna hás nafnvaxtastigs í dag,“ segir í skýrslu HMS.