Hrein ný í­búða­lán frá bönkum til heimila námu 14 milljörðum króna í júní­mánuði á meðan hrein ný í­búða­lán frá líf­eyris­sjóðum til heimila námu 1,7 milljörðum, sam­kvæmt mánaðar­skýrslu Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar.

Sam­kvæmt skýrslunni sýnir lána­markaðurinn fá merki um út­breidda greiðslu­erfið­leika þar sem van­skil heimila eru lítil í sögu­legu sam­hengi.

Greiðslu­byrði margra heimila kemur hins vegar til með að þyngjast á næstu mánuðum þegar fjöldi samninga um fasta vexti í­búða­lána rennur út.

Alls tóku heimilin ný verð­tryggð lán að fjár­hæð 28,9 milljarða króna í júní þar sem upp­greiðslur ó­verð­tryggðra lána halda á­fram.

Alls voru 14,1 milljarðar af ó­verð­tryggðum lánum greidd upp í júní. Megnið af þeim eða 12,1 milljarður voru upp­greiðslur á lánum frá bönkunum.

Líf­eyris­sjóðirnir hófu mun síðar að bjóða upp á ó­verð­tryggð lán og því er mun lægra hlut­fall úti­standandi í­búða­lána ó­verð­tryggt hjá líf­eyris­sjóðunum saman­borið við hjá bönkunum.

Á fyrri helmingi þessa árs námu lán til heimila 65 milljörðum króna en árið 2023 námu lán til heimila alls 131 milljarði á föstu verð­lagi.

„Um helmingi fleiri kaup­samningar voru gerðir á fyrri hluta þessa árs saman­borið við árið í fyrra. Í­búðum í eigu lög­aðila og ein­stak­linga sem eiga fleiri en eina íbúð hefur fjölgað hraðar en í­búðum í eigu ein­stak­linga sem eiga eina íbúð síðustu misseri, líkt og kom fram í fast­eigna­kafla skýrslunnar. Hafa verður í huga að út­lán til þessara aðila eru ekki inni í framan­greindum tölum. Þar að auki hafa upp­kaup Fast­eigna­fé­lagsins Þór­kötlu á­hrif til lækkunar á út­lánum til heimila en á móti hafa lán til fyrir­tækja í þjónustu tengdri fast­eigna­fé­lögum aukist vegna Þór­kötlu,“ segir í skýrslu HMS.

Heildar­fjár­hæð úti­standandi lána til heimila nam sam­tals 2.674 milljörðum króna í júní.

Síðast­liðna 12 mánuði hafa heildar­út­lán til heimila aukist um 1% að raun­virði. Frá miðju ári 2021 hafa heildar­út­lán þó haldist til­tölu­lega stöðug að raun­virði og 12 mánaða breyting sveiflast á milli -1,5% og 1%.

Síðustu tólf mánuði hefur fjár­hæð nýrra verð­tryggðra lána að jafnaði verið um tvö­falt hærri en fjár­hæð upp­greiddra ó­verð­tryggðra lána eða sem nemur 24 milljörðum á móti 12 milljarða upp­greiðslum ó­verð­tryggðra lána.

„Við­búið er að þessi þróun haldi á­fram eða aukist en meiri­hluti ó­verð­tryggðra lána á föstum vöxtum koma til endur­skoðunar frá og með júlí á þessu ári til og með ágúst á næsta ári. Heimili með háa greiðslu­byrði hafa fært sig yfir í verð­tryggð lán undan­farið ár og munu þau væntan­lega halda á­fram að gera það í miklum mæli þegar til fyrr­nefndrar endur­skoðunar kemur vegna hás nafn­vaxta­stigs í dag,“ segir í skýrslu HMS.