Greina má að vanskil bæði heimila og fyrirtækja eru að aukast marktækt og hafa aukist hraðar síðustu mánuði. „Aukningin gæti bent til þess að langvarandi verðbólga og háir vextir séu farin að hafa áhrif á greiðslugetu,“ segir í frétt á vef innheimtufyrirtækisins Motus.

Kröfum sem greiddar eru eftir eindaga hefur fjölgað um 0,9% frá sama tíma fyrir ári (rúllandi meðaltal 6 mánaða).

Mynd tekin af heimasíðu Motus.

Alvarlegum vanskilum fjölgar

Alvarleg vanskil fyrirtækja, þar sem greiðslur tefjast lengur en 45 daga umfram eindaga, hafa einnig aukist það sem af er ári. Raunar er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2020 sem alvarlegum vanskilum fyrirtækja fjölgaði og hefur sú þróun haldið áfram á þessu ári og með meiri hraða en í fyrra samkvæmt Motus.

„Heilt yfir eru vanskil enn töluvert undir því sem var fyrir heimsfaraldur en hröð og stöðug aukning síðustu mánuði vekur sérstaka athygli. Aukin vanskil á almennum greiðslukröfum geta haft forspárgildi um víðtækari fjárhagsvanda framundan.“

Aukin vanskil er að greina hjá bæði einstaklingum og í öllum greinum atvinnulífsins en aukningin er þó meiri í tilviki einstaklinga.

„Það eru skýr merki um að vanskil séu að aukast jafnt og þétt í fyrsta sinn síðan fyrir heimsfaraldur og áhyggjuefni ef þessi þróun heldur áfram,“ segir Brynja Baldursdóttir, forstjóri Motus.

„Það sem við stöldrum sérstaklega við er að þessi aukning er að gerast ansi hratt á síðustu mánuðum eftir að hafa farið mjög rólega af stað í lok síðasta árs. Kröfur eru lengur að greiðast og höfuðstólarnir eru hærri en áður. Við erum að horfa á greiðsluhraða krafna í rauntíma í okkar gögnum og sjáum þessa þróun því mun fyrr en t.d. opinberar stofnanir.

Kröfur á borð við áskriftir og þjónustur eru oft með því fyrsta sem verður undir þegar kreppir að og fólk fer að forgangsraða hvaða reikninga það greiðir. Aukning á slíkum vanskilum getur bent til þess að alvarlegri vanskil t.d. á íbúða- eða bílalánum geti komið í kjölfarið og að þörf sé á samtali eða aðgerðum til að bregðast við.

Það er okkar von að þessar upplýsingarnar gagnist bæði opinberum aðilum og einkageiranum og geti verið ákveðin viðvörunarbjalla, því ef vanskil aukast mjög hratt er það til merkis um að eitthvað sé að gerast sem bregðast þurfi við.“