Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að hlutfall fasteignaverðs miðað við tekjur og leiguverð gefi til kynna allt að 12-17 prósenta misræmi í fasteignaverði. Ef leiðrétting ætti sér stað gæti hún valdið fjárhagstjóni, bæði fyrir heimilin og lánveitendur. Þá kemur einnig fram að hlutfall húsnæðisverðs og launavísitölu hafi aukist um 14 prósent, sem sé sögulega hátt. Á sama tíma hafi hlutfallið við vísitölu byggingarkostnaðar aukist um 6 prósent en það skýri einungis hluta hækkunarinnar. Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, telur undirliggjandi þætti benda til þess að húsnæðisverð muni lækka eða í besta falli staðna. Þá segir hann samband vera á milli byggingakostnaðar og húsnæðisverðs yfir löng tímabil. Til að mikið sé byggt þurfi húsnæðisverð að vera tiltölulega hátt miðað við byggingakostnað, en sé verðið lágt þá sé minna byggt.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.