Evrópski seðla­bankinn varar við því að evru­svæðið gæti lenti í annarri skulda­kreppu ef ríki nái ekki að auka hag­vöxt, draga úr opin­berum skuldum og minnka óvissu í stefnumótun.

Þetta kemur fram í fjár­málastöðug­leika­riti bankans sem birtist í morgun en Financial Times greinir frá.

Í skýrslunni varar Evrópski seðla­bankinn við hættu á endur­komu á „áhyggjum markaðsaðila yfir sjálf­bærni skuldasöfnunar“ aðildarríkja.

Bankinn sagði „háar skuldir og mikinn fjár­laga­halla“ aðildarríkjanna ásamt veik­burða hag­vexti á evru­svæðinu vera áhyggju­efni og þá hafa niður­stöður kosninga til Evrópuþingsins og kosninga á landsvísu aukið óvissuna á evru­svæðinu.

Mis­munur á ávöxtunar­kröfu franskra og þýskra ríkis­skulda­bréfa til tíu ára, sem er lykilmæli­kvarði á áhyggjur fjár­festa, hækkaði um 0,77 pró­sentu­stig í mánuðinum.

Krafan er nálægt 12 ára há­markinu sem sást fyrir þing­kosningarnar síðastliðið sumar.

„Mót­vindur gegn hag­vexti, sem og lítil fram­leiðni, eykur líkurnar á hærra skulda­stigi og meiri fjár­laga­halla sem mun lík­legast endur­vekja áhyggjur um sjálfs­bærni,“ segir í riti Evrópska Seðla­bankans.

Ófær um að fjárfestingar til að takast á við loftlagsbreytingar

Rúmur ára­tugur er liðinn frá því að Grikk­land slapp naum­lega við greiðslu­fall eftir að áhyggjur af fjár­málastöðu þess vöktu óróa á mörkuðum um evruna sem sam­eigin­legan gjald­miðil.

Þáverandi for­seta Evrópska seðla­bankans, Mario Draghi, tókst að róa markaði er hann hét því að gera „hvað sem er“ til að koma í veg fyrir hrun mynts­væðisins.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu bankans í morgun eru áhættur tengdar ríkis­fjár­málum aðildarríkjanna að aukast vegna „veikrar undir­stöðu“ hjá nokkrum aðildarríkjum. Þá þurfa fjölmörg ríki evru­svæðisins að endur­fjár­magna sig á verri kjörum vegna yfir­vofandi gjald­daga á skuldum.

Sam­kvæmt Evrópska seðla­bankanum nær sam­spil lítils hag­vaxtar og hárra ríkis­skulda til um 20 landa á evru­svæðinu en að mati bankans munu löndin eiga erfitt með að fjár­magna varnarút­gjöld eða ráðast í fjár­festingar til að takast á við loft­lags­breytingar.

Hætta á snöggri leiðréttingu á mörkuðum

Hluta­bréfa- og skulda­bréfa­markaðir á evru­svæðinu eru einnig í hættu á „snöggum leiðréttingum“ en að mati bankans hafa „há verðmöt og áhætta af sam­söfnun“ nú þegar valdið tölu­verðum en þó skamm­lífum óstöðug­leika.

Í hugsan­legri efna­hags­lægð gætu efna­hags­reikningar við­skipta­banka á evru­svæðinu einnig orðið fyrir höggi þar sem neyt­endur og fyrir­tæki á evru­svæðinu eru nú þegar að glíma við hærri vexti.

Þá eru vandræði á atvinnuhúsnæðismarkaðinum mikil í Evrópu en það gæti leitt til þess að fjárfestingabankar og fjárfestingasjóðir á evrusvæðinu þurfi að taka á sig töluverð töp á næstunni.