Evrópski seðlabankinn varar við því að evrusvæðið gæti lenti í annarri skuldakreppu ef ríki nái ekki að auka hagvöxt, draga úr opinberum skuldum og minnka óvissu í stefnumótun.
Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikariti bankans sem birtist í morgun en Financial Times greinir frá.
Í skýrslunni varar Evrópski seðlabankinn við hættu á endurkomu á „áhyggjum markaðsaðila yfir sjálfbærni skuldasöfnunar“ aðildarríkja.
Bankinn sagði „háar skuldir og mikinn fjárlagahalla“ aðildarríkjanna ásamt veikburða hagvexti á evrusvæðinu vera áhyggjuefni og þá hafa niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins og kosninga á landsvísu aukið óvissuna á evrusvæðinu.
Mismunur á ávöxtunarkröfu franskra og þýskra ríkisskuldabréfa til tíu ára, sem er lykilmælikvarði á áhyggjur fjárfesta, hækkaði um 0,77 prósentustig í mánuðinum.
Krafan er nálægt 12 ára hámarkinu sem sást fyrir þingkosningarnar síðastliðið sumar.
„Mótvindur gegn hagvexti, sem og lítil framleiðni, eykur líkurnar á hærra skuldastigi og meiri fjárlagahalla sem mun líklegast endurvekja áhyggjur um sjálfsbærni,“ segir í riti Evrópska Seðlabankans.
Ófær um að fjárfestingar til að takast á við loftlagsbreytingar
Rúmur áratugur er liðinn frá því að Grikkland slapp naumlega við greiðslufall eftir að áhyggjur af fjármálastöðu þess vöktu óróa á mörkuðum um evruna sem sameiginlegan gjaldmiðil.
Þáverandi forseta Evrópska seðlabankans, Mario Draghi, tókst að róa markaði er hann hét því að gera „hvað sem er“ til að koma í veg fyrir hrun myntsvæðisins.
Samkvæmt yfirlýsingu bankans í morgun eru áhættur tengdar ríkisfjármálum aðildarríkjanna að aukast vegna „veikrar undirstöðu“ hjá nokkrum aðildarríkjum. Þá þurfa fjölmörg ríki evrusvæðisins að endurfjármagna sig á verri kjörum vegna yfirvofandi gjalddaga á skuldum.
Samkvæmt Evrópska seðlabankanum nær samspil lítils hagvaxtar og hárra ríkisskulda til um 20 landa á evrusvæðinu en að mati bankans munu löndin eiga erfitt með að fjármagna varnarútgjöld eða ráðast í fjárfestingar til að takast á við loftlagsbreytingar.
Hætta á snöggri leiðréttingu á mörkuðum
Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir á evrusvæðinu eru einnig í hættu á „snöggum leiðréttingum“ en að mati bankans hafa „há verðmöt og áhætta af samsöfnun“ nú þegar valdið töluverðum en þó skammlífum óstöðugleika.
Í hugsanlegri efnahagslægð gætu efnahagsreikningar viðskiptabanka á evrusvæðinu einnig orðið fyrir höggi þar sem neytendur og fyrirtæki á evrusvæðinu eru nú þegar að glíma við hærri vexti.
Þá eru vandræði á atvinnuhúsnæðismarkaðinum mikil í Evrópu en það gæti leitt til þess að fjárfestingabankar og fjárfestingasjóðir á evrusvæðinu þurfi að taka á sig töluverð töp á næstunni.