Við­skiptaráð Ís­lands leggst gegn frum­varpi ríkis­stjórnarinnar um breytingar á lögum um al­manna­tryggingar og varar við að þær leiði til þriggja megin­vanda­mála: aukins kostnaðar fyrir ríkis­sjóð, veikari hvata til at­vinnuþátt­töku og aukinnar skatt­byrði á vinnandi fólk.

Í um­sögn ráðsins um frum­varpið, sem nú liggur fyrir Alþingi, er varað við því að með því að binda bóta­greiðslur við launa­vísitölu í stað launaþróunar verði jafn­vægi raskað milli þeirra sem þiggja bætur og þeirra sem standa undir þeim með vinnu­fram­lagi og skatt­greiðslum.

Sjálf­virkur út­gjalda­vöxtur

Í nú­gildandi lögum er þegar kveðið á um að bætur al­manna­trygginga skuli hækka í samræmi við launaþróun, þó aldrei minna en verðbólga sam­kvæmt vísitölu neyslu­verðs.

Með frum­varpinu er stigið lengra: bóta­greiðslur myndu fylgja launa­vísitölu sem hækkar jafnt og þétt, óháð kjara­samningum eða efna­hags­stöðu.

Að mati Við­skiptaráðs getur slíkt fyrir­komu­lag ýtt undir ósjálf­bæran út­gjalda­vöxt ríkisins, sér­stak­lega á tímum niður­sveiflu, þar sem bætur myndu hækka hraðar en laun. „Í slíku ár­ferði er óskyn­sam­legt að auka byrðar þeirra sem standa utan bóta­kerfisins og eru lykil­for­senda verðmæta­sköpunar,“ segir í um­sögninni.

Við­skiptaráð bendir á að ef nýja fyrir­komu­lagið hefði verið við lýði frá alda­mótum hefðu bætur hækkað um 13% meira en launa­vísi­tala og 85% um­fram verðlag, saman­borið við 64% hækkun launa­vísitölu á sama tíma. Á sama tíma­bili hafi ör­orkulíf­eyrir sjöfaldast en laun aðeins sex­faldast.

Fram­færslan sem bætur veita myndi þar af leiðandi verða hlut­falls­lega aðlaðandi kostur, sér­stak­lega fyrir þá sem standa höllum fæti á vinnu­markaði. Með því dregur úr hvata til at­vinnuþátt­töku, sem getur í kjölfarið leitt til minni verðmæta­sköpunar og tekju­skatta og þannig þyngra álags á þá sem áfram starfa.

Við­skiptaráð varar sér­stak­lega við áhrifum breytingarinnar á at­vinnu­leysis­bætur, þar sem í greinar­gerð frum­varpsins kemur fram að þær hækki yfir­leitt til samræmis við bætur al­manna­trygginga.

Ef þróunin heldur áfram, segir ráðið, gæti komið að því að at­vinnu­leysis­bætur verði hærri en lág­marks­laun, sem myndi „gera sum störf fjár­hags­lega ó­að­laðandi fyrir at­vinnu­leit­endur“. Slíkt telst vart sjálf­bært í langtíma­sam­hengi.

Ör­orka og út­gjöld vaxandi en hvatar skekktir

Í um­sögninni er bent á að Ís­land sé þegar með hæstu út­gjöld til ör­orku á Norður­löndum og að ör­orka sé al­gengari hér en í flestum öðrum vestrænum ríkjum, bæði miðað við mann­fjölda og þá sem eru á vinnu­færum aldri. Í ljósi þessa telur Við­skiptaráð brýnt að stjórn­völd grípi til að­gerða til að draga úr fjölgun bótaþega, t.d. með auknu endur­mati á ör­orku og inn­leiðingu virkra úrræða.

Að mati ráðsins er fyrir­huguð tví­trygging, þar sem bætur eru bæði verð- og launa­tengdar, óhóf­leg og skekkir jafn­vægi milli at­vinnuþátt­töku og bótatöku.

Hægt er að lesa um­sögnina hér.