Viðskiptaráð Íslands leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um almannatryggingar og varar við að þær leiði til þriggja meginvandamála: aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð, veikari hvata til atvinnuþátttöku og aukinnar skattbyrði á vinnandi fólk.
Í umsögn ráðsins um frumvarpið, sem nú liggur fyrir Alþingi, er varað við því að með því að binda bótagreiðslur við launavísitölu í stað launaþróunar verði jafnvægi raskað milli þeirra sem þiggja bætur og þeirra sem standa undir þeim með vinnuframlagi og skattgreiðslum.
Sjálfvirkur útgjaldavöxtur
Í núgildandi lögum er þegar kveðið á um að bætur almannatrygginga skuli hækka í samræmi við launaþróun, þó aldrei minna en verðbólga samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Með frumvarpinu er stigið lengra: bótagreiðslur myndu fylgja launavísitölu sem hækkar jafnt og þétt, óháð kjarasamningum eða efnahagsstöðu.
Að mati Viðskiptaráðs getur slíkt fyrirkomulag ýtt undir ósjálfbæran útgjaldavöxt ríkisins, sérstaklega á tímum niðursveiflu, þar sem bætur myndu hækka hraðar en laun. „Í slíku árferði er óskynsamlegt að auka byrðar þeirra sem standa utan bótakerfisins og eru lykilforsenda verðmætasköpunar,“ segir í umsögninni.
Viðskiptaráð bendir á að ef nýja fyrirkomulagið hefði verið við lýði frá aldamótum hefðu bætur hækkað um 13% meira en launavísitala og 85% umfram verðlag, samanborið við 64% hækkun launavísitölu á sama tíma. Á sama tímabili hafi örorkulífeyrir sjöfaldast en laun aðeins sexfaldast.
Framfærslan sem bætur veita myndi þar af leiðandi verða hlutfallslega aðlaðandi kostur, sérstaklega fyrir þá sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Með því dregur úr hvata til atvinnuþátttöku, sem getur í kjölfarið leitt til minni verðmætasköpunar og tekjuskatta og þannig þyngra álags á þá sem áfram starfa.
Viðskiptaráð varar sérstaklega við áhrifum breytingarinnar á atvinnuleysisbætur, þar sem í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þær hækki yfirleitt til samræmis við bætur almannatrygginga.
Ef þróunin heldur áfram, segir ráðið, gæti komið að því að atvinnuleysisbætur verði hærri en lágmarkslaun, sem myndi „gera sum störf fjárhagslega óaðlaðandi fyrir atvinnuleitendur“. Slíkt telst vart sjálfbært í langtímasamhengi.
Örorka og útgjöld vaxandi en hvatar skekktir
Í umsögninni er bent á að Ísland sé þegar með hæstu útgjöld til örorku á Norðurlöndum og að örorka sé algengari hér en í flestum öðrum vestrænum ríkjum, bæði miðað við mannfjölda og þá sem eru á vinnufærum aldri. Í ljósi þessa telur Viðskiptaráð brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að draga úr fjölgun bótaþega, t.d. með auknu endurmati á örorku og innleiðingu virkra úrræða.
Að mati ráðsins er fyrirhuguð tvítrygging, þar sem bætur eru bæði verð- og launatengdar, óhófleg og skekkir jafnvægi milli atvinnuþátttöku og bótatöku.
Hægt er að lesa umsögnina hér.