Vátryggingartakar hjá NOVIS gætu orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem slitastjóri hefur ekki enn verið skipaður.

Vátryggingarfélaginu NOVIS Insurance Company hefur verið óheimilt að gera nýja vátryggingasamninga síðan 1. júní 2023 þegar Seðlabanki Slóvakíu afturkallaði starfsleyfi NOVIS.

Slitastjóri hefur þó ekki enn verið skipaður og hefur Seðlabanki Íslands vakið athygli á fréttatilkynningu sem birtist í dag á vefsíðu EIOPA (evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar).

Þar segir að félagið geti nú aðeins sinnt þeim verkefnum sem nauðsynleg séu til að þjónusta núverandi samninga, þ.e. innheimta iðgjöld og gera upp kröfur. NOVIS er þá undir takmörkuðu eftirliti meðan slitastjóri hefur enn ekki verið skipaður og vegna yfirstandandi dómsmála er óvíst hvort og hvenær sú ákvörðun verður tekin af dómstólum.

Núverandi staða getur leitt því til tjóns á hagsmunum neytenda og eiga vátryggingartakar í hættu á að verða fyrir fjárhagslegu tjóni haldi þeir áfram að greiða iðgjöld til félags sem hefur ekki lengur starfsleyfi, sem NBS hefur farið fram á að verði sett í slitameðferð og sem er undir takmörkuðu eftirliti NBS.

„Í ljósi hægagangs á framvindu málsins þurfa vátryggingartakar að endurmeta valkosti sína vandlega út frá fyrirliggjandi upplýsingum og, eftir að hafa leitað sérfræðiráðgjafar, ákveða hvaða leið sé best fyrir þá, þar með talið að hætta greiðslu iðgjalda og segja upp samningum sínum,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.