Fjárfestar vestanhafs hafa verið fullir eldmóðs það sem af er ári og hefur S&P 500 vísitalan ekki átt öflugri ársbyrjun frá árinu 1997.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um rúm 21% á fyrstu níu mánuðum ársins og spá flestar greiningardeildir áframhaldandi hækkunum á fjórða ársfjórðungi.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru varanlegir innherjar stórfyrirtækjanna vestanhafs þó að stíga varlega til jarðar.
Af öllum tilkynntum hlutabréfaviðskiptum fruminnherja voru einungis 15,7% þeirra á kauphliðinni. Mun það vera lægsta mælda hlutfall slíkra viðskipta í meira en áratug.
Hlutabréfakaup innherja tóku aðeins við sér í ágúst og voru 25,7% af öllum viðskiptum á kauphliðinni en féllu síðan aftur í 21,9% í septembermánuði. Síðustu mánuðir hafa þannig allir verið undir tíu ára meðaltalinu sem stendur í 26,3%.
Varanlegir innherjar keyptu hlutabréf fyrir 2,3 milljarða bandaríkjadali að markaðsvirði á fyrstu níu mánuðum ársins. Sú upphæð hefur ekki verið lægri síðan 2014 en innherjar keyptu hlutabréf fyrir rúma 3 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.
Með innherjaupplýsingum er í stuttu máli átt við nægjanlega tilgreindar óbirtar upplýsingar um útgefanda sem væru til þess fallnar að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninganna eða verð tengdra afleiddra fjármálagerninga ef opinberar væru.
Varanlegir innherjar eru þeir sem hafa ávallt aðgang að innherjaupplýsingum.
Sterkt vísbending um þróun
Á síðustu mánuðum hafa þekktir stjórnendur og eigendur fyrirtækja verið meira að selja bréf sín en bæði Jeff Bezos stjórnarformaður Amazon og Mark Zuckerberg forstjóri Meta Platforms hafa selt hlutabréf fyrir milljarða dali á árinu.
Þá hefur Warren Buffet ákveðið að sitja á höndum sér og hefur handbært fé fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway aldrei verið meira.
„Innherjaviðskipti geta veitt sterka vísbendingu um framtíðarhreyfingu hlutabréfaverðs,“ segir Nejat Seyhun, prófessor við Ross School of Business við Háskólann í Michigan, í samtali við WSJ. „Sú staðreynd að kauphlutfallið sé undir meðaltalinu gæti gefið vísbendingu um að gengið verði undir meðaltali síðustu ára einnig.“
Seyhun segir að innherjar séu um þessar mundir að hafa áhyggjur af mögulegum efnahagssamdrætti sem sögulega hefur neikvæð áhrif á hlutabréfaverð.
Þó að verðbólga sé að hjaðna og bjartsýni neytenda sé að aukast eru efnahagsleg gögn sem sýni að staðan sé viðkvæm.
Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan Chase, er einn af þeim sem hefur hvatt til stillingar og haft miklar áhyggjur af efnahag Bandaríkjanna. Dimon skrifaði hluthöfum bréf í maí þar sem hann sagðist vera „hóflega svartsýnn“ á framhaldið þrátt fyrir að gengi bankans væri í hæstu hæðum.
Stóru fjárfestingabankarnir í Bandaríkjunum birta uppgjör á næstu dögum sem gæti gefið innsýn inn í stöðuna á lánamörkuðum og fjárfestingum.
JP Morgan, Wells Fargo og Bank of New York Mellon skila uppgjöri á föstudaginn og síðan skila Bank of America og Goldman Sachs uppgjöri á þriðjudaginn í næstu viku.