Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu varar Evrópusambandið við því að hefja refsiaðgerðir gegn Bandaríkjunum vegna nýrra tolla sem Washington hefur lagt á stál og ál.
Slíkt gæti leitt til hækkunar verðlags og hægari hagvaxtar í Evrópu, að hennar mati.
Meloni hvatti framkvæmdastjórn ESB til að hefja tafarlausar viðræður við stjórn Donalds Trump til að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar viðskiptastríðs.
„Það er ekki skynsamlegt að falla í þá freistni að grípa til gagnráðstafana sem leiða til vítahrings þar sem allir tapa,“ sagði hún á þingi í gær en Financial Times greinir frá.
„Við verðum að vinna á áþreifanlegan og raunsæjan hátt að því að finna sameiginlegar lausnir og forðast viðskiptastríð sem myndi hvorki gagnast Bandaríkjunum né Evrópu.“
Orð hennar koma í kjölfar þess að framkvæmdastjórn ESB tilkynnti áform um að leggja allt að 50% tolla á bandarískar vörur á borð við viskí, mótorhjól og gallabuxur frá 1. apríl.
Þessar aðgerðir eru svar við ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að endurvekja 25% toll á innflutning á stáli og áli frá Evrópu. Trump hefur jafnframt hótað að leggja 200% toll á áfengi frá Evrópu, þar á meðal ítölsk vín og sterka drykki.
Meloni, sem er eini evrópski leiðtoginn sem sótti innsetningu Trump, hefur reynt að halda góðum samskiptum við Washington, á sama tíma og hún styður afstöðu ESB um að Rússland sé árásaraðilinn í stríðinu í Úkraínu.
Hún styður einnig viðleitni Trump til að binda enda á stríðið og endurvekja hernaðaraðstoð og njósnasamstarf við Úkraínu, eftir að Kænugarður samþykkti tillögu hans um 30 daga vopnahlé.
Meloni varar þó við því að vaxandi viðskiptadeilur við Bandaríkin gætu grafið undan kaupmætti Evrópubúa og þvingað Seðlabanka Evrópu til að hækka vexti. „Afleiðingin yrði verðbólga og hert peningastefna sem kæfði hagvöxt,“ sagði hún. „Orka Ítalíu verður að beinast að því að finna skynsamlegar lausnir í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu.“
Hún hafnaði einnig kröfum Frakklands og Þýskalands um að Evrópa ætti að feta sjálfstæða braut í varnarmálum og sagði að öryggi álfunnar, þar á meðal Úkraínu, væri ekki mögulegt án Bandaríkjanna. „Það er rétt að Evrópa geri sitt, en það er annaðhvort barnalegt eða hreinlega galið að halda að álfan geti staðið ein án Atlantshafsbandalagsins (NATO),“ sagði hún.
Meloni lýsti einnig efasemdum um áætlanir ESB um að safna 150 milljörðum evra í lán til að fjármagna varnarútgjöld og veita undanþágur frá fjármálareglum sambandsins vegna hernaðar. Hún sagði að verkefnið, sem ber nafnið „ReArm Europe“, gæti skapað óþarfa vopnakapphlaup, sem gæti reynst umdeilt á Ítalíu þar sem sterkur friðarsinnaður straumur er fyrir hendi.
Þar að auki gagnrýndi Meloni hugmyndir Frakka og Breta um að senda evrópska hermenn til Úkraínu sem friðargæsluliða og sagði slíkt „mjög flókið, áhættusamt og óskilvirkt“.
Hins vegar sagðist hún styðja aukna vernd viðkvæmra innviða á borð við neðansjávarstrengina og orkuinnviði Evrópu. „Við höfum alltaf trúað á það metnaðarfulla markmið – sem ég tel óhjákvæmilegt – að byggja upp öflugan evrópskan stoð Atlantshafsbandalagsins.