Ríkissjóður Bandaríkjanna mun hafa fullnýtt lánaheimildir sínar um miðjan næsta mánuð samkvæmt Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og verður þá þörf á óvanalegum aðgerðum (e. extraordinary measures) til að koma í veg fyrir greiðslufall.
Þetta kemur fram í bréfi sem Yellen sendi þingmönnum í gær og Wall Street Journal greinir frá.
Árið 2023 var ákvörðun tekin um að afnema skuldaþakið tímabundið til 1. janúar 2025 og stefnt á að nýtt skuldaþak tæki gildi degi síðar. Í bréfi Yellen kemur fram að ráðuneytið reikni með að því hámarki verði náð milli 14. og 23. janúar 2025.
Yellen hvatti þingmenn til að koma í gegn nýrri löggjöf um hækkun skuldaþaksins fyrir sumarið en viðbúið er að þingleg meðferð taki nokkra mánuði. Að óbreyttu stefni Bandaríkin á greiðslufall.
Sjálf lætur Yellen af störfum þann 20. janúar, þegar Donald Trump tekur við embætti Bandaríkjaforseta. Sjálfur hefur Trump þrýst á þingið að afnema skuldaþakið til janúar 2027 en skiptar skoðanir eru á slíkum aðgerðum, eins og áður. Fjöldi repúblikana hafa kallað eftir lækkun ríkisútgjalda og telja að skuldaþakið feli í sér nauðsynlegt aðhald.
Komi til greiðslufalls í Bandaríkjunum er ljóst að það muni hafa víðtæk áhrif, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur í flestum hagkerfum heimsins. Fjármálaráðherrar hafa oft ítrekað að það hafi aldrei komið til að Bandaríkin hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar, en skiptar skoðanir eru um hvort sú fullyrðing sé sönn.