Milljarðamæringurinn og stofnandi vogunar­sjóðsins Brid­gewa­ter Associa­tes, Ray Dalio, varar við því að Bret­land gæti verið á leið í „skulda­spíral“ þar sem landið þurfi að taka sí­fellt meira lán til að standa undir hækkandi vaxta­kostnaði.

Í viðtali við Financial Times lýsti Dalio áhyggjum sínum af því að hækkandi vaxta­greiðslur, sem nú nema yfir 100 milljörðum punda á ári, ásamt þörf fyrir endur­fjár­mögnun skulda á hærri vöxtum, gætu myndað víta­hring sem leiðir til aukinnar skuld­setningar.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í síðustu viku rauk fjár­mögnunar­kostnaður breska ríkisins upp úr öllu valdi skömmu en Rachel Ree­ves, fjár­málaráðherra Bret­lands stefnir á metút­gáfu skulda­bréfa á árinu.

„Þetta lítur út eins og skulda­spírall í upp­siglingu,“ sagði Dalio. „Það mun krefjast meiri lántöku til að standa undir skuldum, draga úr annarri opin­berri út­gjalda­neyslu eða leiða til hærri skatta.“

Markaðs­sveiflur og vaxta­hækkanir

Dalio benti á að ný­legar sveiflur á markaði, þar á meðal veiking pundsins og hækkun ávöxtunar á bresk ríkis­skulda­bréf til 30 ára ( e. gilts), gefi til kynna að markaðurinn eigi erfitt með að takast á við aukna lántökuþörf Bret­lands frá fjár­laga­frum­varpinu í október í fyrra.

Áhyggjur vegna þrálátrar verðbólgu hafa einnig leitt til þess að væntingar um vaxtalækkanir seðla­banka hafa dregist saman, sem hefur aukið ávöxtunar­kröfur á skulda­bréf.

Ávöxtun 10 ára breskra ríkis­skulda­bréfa hækkaði í 4,93 pró­sent í upp­hafi mánaðarins, við hæstu hæðir síðan í fjár­mála­kreppunni, en hefur nú lækkað í 4,66 pró­sent.

Skuldir Bandaríkjanna einnig áhyggju­efni

Dalio sagði einnig að Bandaríkin sýndu „merki“ um að markaðurinn gæti átt í erfið­leikum með að taka við aukinni lántöku þar í landi. Hann kallar stjórnun skulda­byrðarinnar „stærsta vanda­málið“ fyrir stjórn­völd, hvort sem litið er til Bandaríkjanna eða Bret­lands.

„Þegar þú þarft að taka lán til að greiða vexti á núverandi skuldum og vaxta­stig hækkar, þá skapast víta­hringur þar sem skuldirnar halda áfram að vaxa,“ sagði Dalio, sem nýverið gaf út greiningu sína á ríkis­skulda­krísum, „How Countries Go Broke“.

Ákall um aðhaldsað­gerðir

Dalio lagði til að fjár­laga­hallinn í báðum löndum yrði minnkaður niður í 3 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Hann viður­kenndi að niður­skurður ríkisút­gjalda eða skatta­hækkanir gætu dregið úr hag­vexti, en bætti við: „Þetta mun leiða til lægri vaxta, sem aftur hefur ör­vandi áhrif á hag­kerfið.“

Þó að fjár­festar hafi dregið úr saman­burði við markaðs­kreppuna eftir „mini-bud­get“ Liz Truss árið 2022 stendur breska ríkis­stjórnin frammi fyrir auknum þrýstingi.

Fjár­málaráðherrann Rachel Ree­ves hefur orðið fyrir gagn­rýni vegna hækkandi vaxta­kostnaðar og aukinnar skuld­setningar.

Dalio lýsti skuldastöðu heimsins sem „kölkun í æða­kerfi“, sem gæti sprungið með ófyrir­sjáan­legum af­leiðingum.

„Þú veist ekki hvenær þetta mun gerast, en áhættan eykst og hættan er mikil,“ sagði hann að lokum.