Þegar stærstu hluta­bréf í Dan­mörku falla skyndi­lega í verði, streymir fjöldi danskra einka­fjár­festa inn á markaðinn til að kaupa þau.

Sam­kvæmt tölum frá Danske Bank, sem hefur yfir 465.000 einka­fjár­festa í Dan­mörku í viðskiptum hjá sér og við­skipta­vett­vangnum Nor­d­net Dan­mark, sem er með yfir 500.000 virka einka­fjár­festa, er þetta vel þekkt hegðunar­mynstur.

„Þetta er al­gengt viðhorf fjár­festa en það getur verið hættu­legt ef fólk metur ekki hvort það sé rétt ákvörðun að kaupa,” segir Natali­a Setlak, sér­fræðingur í verðbréfa­við­skiptum hjá Danske Bank, í sam­tali við Børsen.

Hún hvetur fjár­festa til að skoða undir­liggjandi ástæður verðlækkana, eins og hvort þær kunni að hafa áhrif á framtíðar­tekjur fyrir­tækjanna.

Verðhrun Vestas og Novo Nor­disk

Þegar hluta­bréf danska vind­myllu­fyrir­tækisins Vestas féllu um 12,2% þann 5. nóvember 2024, og síðan aftur um 12,8% daginn eftir, virtust danskir fjár­festar ótta­lausir, að sögn Børsen.

„Við sáum 132% aukningu í við­skiptum með hluta­bréf Vestas í nóvember miðað við venju­legt magn,” segir Setlak.

Svipað mynstur sást þegar Novo Nor­disk til­kynnti von­brigðagögn í tengslum við lyfja­rannsókn á nýju lyfi 20. desember.

Þá jókst við­skipta­magnið með hluta­bréf Novo Nor­disk hjá Danske Bank um 120% í desember, þar sem yfir 80% við­skipta voru kaup.

„Þetta sýnir greini­lega að fjár­festar laðast að hluta­bréfum sem falla í verði, í þeirri von að fá þau á af­slætti. En ef kaup eru ein­göngu byggð á þeirri til­finningu, þá er það spá­kaup­mennska,” segir Natali­a og bætir við að slíkar að­ferðir séu oft skammtíma­hugsun.

Vaxandi áhugi þrátt fyrir tap

Hluta­bréf Vestas hafa fallið um 32% síðan í byrjun nóvember, á meðan Novo Nor­disk hefur lækkað um 22% frá desember. Þrátt fyrir þetta fjölgaði við­skipta­vinum Nor­d­net um 10.000 manns þegar Novo Nor­disk féll um 20,7% í verði.

„Fólk vildi ekki missa af tækifærinu og ákvað að stökkva á vagninn,” segir Tine Vestergren Uldal, landstjóri Nordnet Danmark.

Breytt eigna­safn danskra fjár­festa

Á síðustu fimm mánuðum hefur hlut­deild danskra hluta­bréfa í eigna­safni einka­fjár­festa lækkað úr 73% í 54,4%.

Setlak bendir á að þessi breyting stafi annaðhvort af markaðstapi eða breyttri eigna­dreifingu fjár­festa.

Þrátt fyrir áhugann á að kaupa bréf í fyrir­tækjum á niður­leið eru fjár­festar aug­ljós­lega að verða meðvitaðri um áhættuna sem fylgir staðbundnum markaði.

Setlak segir að það sé þó mögu­legt að vægi danskra hluta­bréfa í eignasöfnum fjár­festa gæti tengst aukinni áherslu á er­lenda markaði.

„Það gæti stafað af því að fjár­festar hafi selt dönsk hluta­bréf og keypt meira í öðrum heims­hlutum, í takt við þá stefnu sem Danske Bank hefur mælt með í mörg ár til að draga úr heima­halla (e. home bias),” út­skýrir Setlak.

Setlak telur þó lík­legast að þróunina megi rekja til þess að danskir hluta­bréfa­markaðir hafa staðið sig mun verr en alþjóð­legir markaðir, sér­stak­lega saman­borið við Bandaríkin.

Hún bendir á að meðal fjár­festa í Dan­mörku hafi „verið harka­lega refsað fyrir of mikla áherslu á danska markaði“.

„Þetta hefur leitt til þess að hlut­fall danskra hluta­bréfa í eignasöfnum hefur minnkað, á meðan vægi er­lendra hluta­bréfa hefur aukist. Þótt ástæðan sé miður, þá er jákvætt að fjár­festar séu að dreifa eigna­safni sínu betur,” segir hún.