Þegar stærstu hlutabréf í Danmörku falla skyndilega í verði, streymir fjöldi danskra einkafjárfesta inn á markaðinn til að kaupa þau.
Samkvæmt tölum frá Danske Bank, sem hefur yfir 465.000 einkafjárfesta í Danmörku í viðskiptum hjá sér og viðskiptavettvangnum Nordnet Danmark, sem er með yfir 500.000 virka einkafjárfesta, er þetta vel þekkt hegðunarmynstur.
„Þetta er algengt viðhorf fjárfesta en það getur verið hættulegt ef fólk metur ekki hvort það sé rétt ákvörðun að kaupa,” segir Natalia Setlak, sérfræðingur í verðbréfaviðskiptum hjá Danske Bank, í samtali við Børsen.
Hún hvetur fjárfesta til að skoða undirliggjandi ástæður verðlækkana, eins og hvort þær kunni að hafa áhrif á framtíðartekjur fyrirtækjanna.
Verðhrun Vestas og Novo Nordisk
Þegar hlutabréf danska vindmyllufyrirtækisins Vestas féllu um 12,2% þann 5. nóvember 2024, og síðan aftur um 12,8% daginn eftir, virtust danskir fjárfestar óttalausir, að sögn Børsen.
„Við sáum 132% aukningu í viðskiptum með hlutabréf Vestas í nóvember miðað við venjulegt magn,” segir Setlak.
Svipað mynstur sást þegar Novo Nordisk tilkynnti vonbrigðagögn í tengslum við lyfjarannsókn á nýju lyfi 20. desember.
Þá jókst viðskiptamagnið með hlutabréf Novo Nordisk hjá Danske Bank um 120% í desember, þar sem yfir 80% viðskipta voru kaup.
„Þetta sýnir greinilega að fjárfestar laðast að hlutabréfum sem falla í verði, í þeirri von að fá þau á afslætti. En ef kaup eru eingöngu byggð á þeirri tilfinningu, þá er það spákaupmennska,” segir Natalia og bætir við að slíkar aðferðir séu oft skammtímahugsun.
Vaxandi áhugi þrátt fyrir tap
Hlutabréf Vestas hafa fallið um 32% síðan í byrjun nóvember, á meðan Novo Nordisk hefur lækkað um 22% frá desember. Þrátt fyrir þetta fjölgaði viðskiptavinum Nordnet um 10.000 manns þegar Novo Nordisk féll um 20,7% í verði.
„Fólk vildi ekki missa af tækifærinu og ákvað að stökkva á vagninn,” segir Tine Vestergren Uldal, landstjóri Nordnet Danmark.
Breytt eignasafn danskra fjárfesta
Á síðustu fimm mánuðum hefur hlutdeild danskra hlutabréfa í eignasafni einkafjárfesta lækkað úr 73% í 54,4%.
Setlak bendir á að þessi breyting stafi annaðhvort af markaðstapi eða breyttri eignadreifingu fjárfesta.
Þrátt fyrir áhugann á að kaupa bréf í fyrirtækjum á niðurleið eru fjárfestar augljóslega að verða meðvitaðri um áhættuna sem fylgir staðbundnum markaði.
Setlak segir að það sé þó mögulegt að vægi danskra hlutabréfa í eignasöfnum fjárfesta gæti tengst aukinni áherslu á erlenda markaði.
„Það gæti stafað af því að fjárfestar hafi selt dönsk hlutabréf og keypt meira í öðrum heimshlutum, í takt við þá stefnu sem Danske Bank hefur mælt með í mörg ár til að draga úr heimahalla (e. home bias),” útskýrir Setlak.
Setlak telur þó líklegast að þróunina megi rekja til þess að danskir hlutabréfamarkaðir hafa staðið sig mun verr en alþjóðlegir markaðir, sérstaklega samanborið við Bandaríkin.
Hún bendir á að meðal fjárfesta í Danmörku hafi „verið harkalega refsað fyrir of mikla áherslu á danska markaði“.
„Þetta hefur leitt til þess að hlutfall danskra hlutabréfa í eignasöfnum hefur minnkað, á meðan vægi erlendra hlutabréfa hefur aukist. Þótt ástæðan sé miður, þá er jákvætt að fjárfestar séu að dreifa eignasafni sínu betur,” segir hún.