Bandaríski bankinn Citigroup gerði alvarleg mistök í apríl á síðasta ári þegar bankinn færði viðskiptavini óvart 81 billjón (e. trillion) Bandaríkjadala inn á reikning hans í stað 280 dala.
Mistökin, sem hafa ekki áður verið opinberuð, sýna fram á viðvarandi rekstrarvandamál hjá bankanum, sem hefur ítrekað lent undir eftirliti fjármálaeftirlitsstofnana vegna áhættustýringar samkvæmt Financial Times.
Mistökin áttu sér stað vegna innsláttarvillu í öryggisafritunarkerfi bankans. Starfsmaður sem sá um greiðsluferlið hafði ekki fjarlægt fyrir fram útfylltu núllin í upphæðarreitnum, sem leiddi til þess að færslan var bókuð sem 81 billjón dala í stað réttu upphæðarinnar.
Aðeins 90 mínútum eftir að færslan var framkvæmd tók þriðji starfsmaður í eftirlitskeðjunni eftir skekkjunni og var hún leiðrétt nokkrum klukkustundum síðar. Engir fjármunir yfirgáfu bankann.
Citigroup tilkynnti um atvikið til bandaríska seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (OCC), en bankinn fullyrðir að innbyggð öryggiskerfi hefðu í öllu falli komið í veg fyrir að fjármunir rynnu út af bankareikningnum.
Hins vegar undirstrikar atvikið þá áhættu sem fylgir handvirkum ferlum innan bankans og hefur Citigroup lofað að efla sjálfvirkni í áhættustýringu sinni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Citigroup lendir í slíkum vandræðum. Árið 2020 bókaði bankinn fyrir mistökum 900 milljónir dala inn á reikninga lánardrottna snyrtivörufyrirtækisins Revlon, sem hafði í för með sér miklar fjárhagslegar afleiðingar, sektir og afsögn þáverandi forstjóra, Michael Corbat.

© Samsett (SAMSETT)
Núverandi forstjóri, Jane Fraser, hefur lagt mikla áherslu á að laga reglufylgni og áhættustýringu bankans, en þrátt fyrir það var Citigroup sektaður um 136 milljónir dala í fyrra vegna mistaka í rekstri sínum.
Samkvæmt innri eftirlitsskýrslu sem Financial Times hefur undir höndum, urðu tíu slík „næstum því mistök“ yfir einum milljarði dala hjá Citigroup á síðasta ári, samanborið við 13 árið á undan.
Bankinn hefur neitað að tjá sig um þessi tilvik sérstaklega. Þar sem slík „næstum því mistök“ eru ekki skráningarskyld hjá eftirlitsaðilum er erfitt að meta hversu oft þau eiga sér stað innan fjármálageirans.
Viðvarandi vandamál Citigroup í greiðslukerfum og áhættustýringu setja bankann í erfiða stöðu, sérstaklega þar sem hann er undir ströngu eftirliti eftir fyrri mistök.
Framhaldið mun skera úr um hvort stjórnendum bankans takist að tryggja að slíkar villur endurtaki sig ekki í framtíðinni.