Elvar Örn Þormar, stofnandi Reon, lét af störfum sem framkvæmdastjóri hugbúnaðarhússins árið 2021 til að koma að stofnun fjártæknifyrirtækisins Standby Deposits þar sem hann starfar sem framkvæmdastjóri vöruþróunar. Sprotafyrirtækið býður leigjendum í Bandaríkjunum bankaábyrgð sem kemur í stað öryggistryggingar.
Egill Almar Ágústsson, framkvæmdastjóri Standby og sá sem átti hugmyndina að fyrirtækinu, leitaði til Elvars á fyrri hluta árs 2021 til að kanna hvort hann hefði áhuga á verkefninu. Þeir höfðu unnið saman sem í Landsbankanum sumrin 2007 og 2008, þá nítján ára gamlir, en höfðu ekki verið í reglulegum samskiptum.
„Ég var aðeins skeptískur á þetta hjá honum,“ segir Elvar um fyrsta fundinn með Agli. „Við erum auðvitað með leiguábyrgð á Íslandi sem er búin að vera til heillengi. Hér heima getur þú bara farið í banka og fengið bankaábyrgð, það er ekkert mál. Ég hugsaði, ef þetta er til á Íslandi þá hlýtur þetta að vera til í Bandaríkjunum, sjálfri fjármálamiðstöð heimsins.“
Hann var þó forvitinn og tilbúinn að ferðast um Bandaríkin með Agli til að kynna sér hvað stæði leigjendum til boða. Þeir ferðuðust frá New York, fóru þaðan m.a. til Flórída, á Money 20/20 ráðstefnuna í Las Vegas og til Kaliforníu. Alls funduðu þeir með fulltrúum 52 banka vítt og breitt um Bandaríkin.
„Það var ein spurning sem við lögum fyrir alla bankanna: „Hvað mynduð þið rukka fyrir að gefa út bankaábyrgð?“ Svarið var alltaf það sama, 500 dollarar (sem samsvarar tæplega 70 þúsund krónum),“ segir Elvar og bætir við að fáir vilji greiða slíka fjárhæð eingöngu til að fá plagg frá bankanum sínum um að maður eigi efni á tryggingunni.
Hann ber þetta saman við kreditkort og furðar sig á því að neytendur geta fengið heimild fyrir milljónum króna en í þessu tilviki eru bankar ekki tilbúnir taka útlánaáhættu og votta að maður sé borgunarmaður fyrir skuld.
„Enginn af bönkunum bauð upp á þetta. Eftir ferðina varð ég alveg sannfærður og hugsaði, ég er að fara að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Reon til þess að stökkva á þetta.
Ég lít á þetta sem tækifæri til að losa um gríðarlega fjármuni sem einstaklingar geta þá nýtt eins og þeir vilja fremur en að peningarnir liggi bara inni á geymslureikningum.“
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar þar sem Egill og Elvar rekja þriggja ára sögu Standby Deposits, háleit markamið og tækifæri á bandaríska markaðnum.