Hlutabréf féllu í verði við opnun markaða í gær eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti tollahugmyndir sínar á sunnudaginn. Þrátt fyrir niðursveiflu í fyrstu viðskiptum endaði
S&P 500-vísitalan aðeins 0,8% lægri en á föstudaginn eftir að Trump ákvað að fresta fyrirhuguðum 25% tollum á innflutning frá Mexíkó í mánuð.
Samkvæmt The Wall Street Journal virðast fjárfestar sannfærðir um að tollarnir verði einungis tímabundnir og notaðir sem tæki til að ná pólitískum ávinningi. Ótti um að tollarnir verði varanlegir og viðskiptastríðið til frambúðar fór dvínandi með deginum.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greindi frá því á mánudaginn að Trump hefði samþykkt að fresta tollum á vörur frá Kanada, og á sama tíma vona kínversk yfirvöld að viðræður um 10% toll á útflutning þeirra til Bandaríkjanna muni bera árangur.
Þrátt fyrir þetta er enn hætta sú að Trump muni reyna sanna sig sem hinn eiginlegi „tollamaður“ (e. Tariff-Man), að sögn WSJ.
Trump hefur ítrekað talað um að nota tolla til að fjármagna ríkissjóð og til að þrýsta á fyrirtæki að flytja framleiðslu sína aftur til Bandaríkjanna. Ef það gerist gætu tollar orðið varanlegir og haft meiri áhrif á efnahagslífið.
Ávöxtunarkrafa á lengri ríkisskuldabréfum bendir til þess að fjárfestar búist við hægari hagvexti vegna tollanna.
Á sama tíma hafa skammtímavextir hækkað þar sem markaðurinn gerir ráð fyrir harðari stefnu Seðlabanka Bandaríkjanna. Hærri vextir án meiri hagvaxtar gætu haft neikvæð áhrif á bæði efnahag og hlutabréfaverð.
Tæknifyrirtæki ekki ósnortin
Margir fjárfestar hafa litið á tæknifyrirtæki sem ónæm fyrir tollum, en þróunin á mánudag sýndi annað. Hlutabréf Alphabet, Amazon, Meta og Microsoft lækkuðu í takt við S&P 500 vísitöluna, en Tesla, Nvidia og Apple urðu fyrir meiri skakkaföllum.
Apple framleiðir mikið magn af vörum sínum í Kína, og Nvidia selur verulegan hluta örgjörva sinna þar í landi.
Hlutabréfaverð Tesla var um 8% lægra en á föstudaginn þegar verst lét en gengið jafnaði sig örlítið með deginum. Gengi Nvidia lækkaði um 6% á meðan gengi Apple féll um 4%.
Slæmt viðskiptasamband við Kína getur haft veruleg áhrif á framtíðartekjur þessara fyrirtækja.
Þar að auki eru háar verðlagningar á hlutabréfum þessara tæknifyrirtækja taldar gera þau viðkvæmari fyrir hvers kyns efnahagsáföllum.
Fjárfestar reikna með viðsnúningi ef markaðurinn lækkar verulega.
Sumir fjárfestar telja að Trump líti á hlutabréfamarkaðinn sem mælikvarða á vinsældir sínar og myndi bregðast við með mildari stefnu ef markaðurinn félli mikið, samkvæmt WSJ.
Hin hliðin af peningnum er þó sú að svo lengi sem fjárfestar halda áfram að búast við að tollar verði aðeins tímabundnir verður lítil pressa á forsetann til að breyta um stefnu.