Hluta­bréf féllu í verði við opnun markaða í gær eftir að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, kynnti tolla­hug­myndir sínar á sunnu­daginn. Þrátt fyrir niður­sveiflu í fyrstu við­skiptum endaði

S&P 500-vísi­talan aðeins 0,8% lægri en á föstu­daginn eftir að Trump ákvað að fresta fyrir­huguðum 25% tollum á inn­flutning frá Mexíkó í mánuð.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal virðast fjár­festar sann­færðir um að tollarnir verði einungis tíma­bundnir og notaðir sem tæki til að ná pólitískum ávinningi. Ótti um að tollarnir verði varan­legir og við­skipta­stríðið til fram­búðar fór dvínandi með deginum.

Justin Tru­deau, for­sætis­ráðherra Kanada, greindi frá því á mánu­daginn að Trump hefði samþykkt að fresta tollum á vörur frá Kanada, og á sama tíma vona kín­versk yfir­völd að viðræður um 10% toll á út­flutning þeirra til Bandaríkjanna muni bera árangur.

Þrátt fyrir þetta er enn hætta sú að Trump muni reyna sanna sig sem hinn eigin­legi „tolla­maður“ (e. Tariff-Man), að sögn WSJ.

Trump hefur ítrekað talað um að nota tolla til að fjár­magna ríkis­sjóð og til að þrýsta á fyrir­tæki að flytja fram­leiðslu sína aftur til Bandaríkjanna. Ef það gerist gætu tollar orðið varan­legir og haft meiri áhrif á efna­hags­lífið.

Ávöxtunar­krafa á lengri ríkis­skulda­bréfum bendir til þess að fjár­festar búist við hægari hag­vexti vegna tollanna.

Á sama tíma hafa skammtíma­vextir hækkað þar sem markaðurinn gerir ráð fyrir harðari stefnu Seðla­banka Bandaríkjanna. Hærri vextir án meiri hag­vaxtar gætu haft neikvæð áhrif á bæði efna­hag og hluta­bréfa­verð.

Tækni­fyrir­tæki ekki ósnortin

Margir fjár­festar hafa litið á tækni­fyrir­tæki sem ónæm fyrir tollum, en þróunin á mánu­dag sýndi annað. Hluta­bréf Alp­habet, Amazon, Meta og Micros­oft lækkuðu í takt við S&P 500 vísitöluna, en Tesla, Nvidia og App­le urðu fyrir meiri skakka­föllum.

App­le fram­leiðir mikið magn af vörum sínum í Kína, og Nvidia selur veru­legan hluta ör­gjörva sinna þar í landi.

Hluta­bréfa­verð Tesla var um 8% lægra en á föstu­daginn þegar verst lét en gengið jafnaði sig ör­lítið með deginum. Gengi Nvidia lækkaði um 6% á meðan gengi App­le féll um 4%.

Slæmt við­skipta­sam­band við Kína getur haft veru­leg áhrif á framtíðar­tekjur þessara fyrir­tækja.

Þar að auki eru háar verðlagningar á hluta­bréfum þessara tækni­fyrir­tækja taldar gera þau viðkvæmari fyrir hvers kyns efna­hags­áföllum.

Fjár­festar reikna með viðsnúningi ef markaðurinn lækkar veru­lega.

Sumir fjár­festar telja að Trump líti á hluta­bréfa­markaðinn sem mæli­kvarða á vinsældir sínar og myndi bregðast við með mildari stefnu ef markaðurinn félli mikið, sam­kvæmt WSJ.

Hin hliðin af peningnum er þó sú að svo lengi sem fjár­festar halda áfram að búast við að tollar verði aðeins tíma­bundnir verður lítil pressa á for­setann til að breyta um stefnu.