Fulltrúar lífeyrissjóðakerfisins sem tóku þátt í umræðum á fundi Seðlabankans í Safnahúsinu fyrir viku síðan telja varhugavert að fella lífeyrissjóði undir sama laga- og regluverk og banka og tryggingafélög. Greint er frá þessu á vef Landsamtaka lífeyrissjóða (LL).

Í nýlegri umræðuskýrslu Seðlabankans um lífeyriskerfið kemur fram að bankinn telji brýnt að endurskoða löggjöf um lífeyrissjóði og að aðlaga ætti tiltekna þætti löggjafarinnar að annarri löggjöf um eftirlitsskylda fjármálastarfsemi, t.d. banka- og vátryggingastarfsemi, m.a. þegar kemur að fasteignalánamarkaði og innra eftirlitskerfi lífeyrissjóða.

Á umræddum fundi þar sem téð skýrsla var til umræðu, tóku Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Björk Sigurgísladóttir og Tómas Brynjólfsson varaseðlabankastjórar þátt í pallborðsumræðum ásamt Ólafi Páli Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins, Rebekku Ólafsdóttur, forstöðumanni hjá Gildi lífeyrissjóðs, og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Fulltrúar lífeyrissjóðakerfisins sögðu vissulega þörf á að breyta ýmsu í lögum um lífeyrissjóði og það hefði lengi blasað við. Hins vegar sögðust þeir að telja nefna mætti margt sem gerði það varhugavert að fella lífeyrissjóði undir sama laga- og regluverk og banka og tryggingafélög.

Lífeyrissjóðir hefðu sérstöðu, löggjöf um þá væri til að mynda íslensk og ekki háð ESB-reglum. Þá væru lífeyrissjóðir m.a. með annars konar skuldbindingar og áhættusnið en bankar. Jafnframt hefðu lífeyrissjóðir ákveðið félagslegt hlutverk „og væru að því leyti ósambærilegir fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum,“ segir í frétt á vef LL.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, lauk sínum athugasemdum með því að segja að engan veginn stæðist fullyrðing um að bankar væru betur fallnir til þess en lífeyrissjóðir að lána fólki fjármuni til fasteignakaupa. Ekki þyrfti að horfa mörg ár aftur í tímann til að átta sig á því.

Forseta ASÍ segir SÍ kominn á vettvang almennra kjarasamninga

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, var viðstaddur fundinn. Hann sagði umræðuskýrslu Seðlabankans vera ágæta „að undanskilinni ásælni Seðlabankans í að hafa meiri áhrif á lífeyrissjóðakerfið og reyna að ryðja brautina fyrir bankana í sjóðfélagalánin, einu samkeppnina á bankamarkaði“.

„ASÍ-forsetinn bætti því við að lífeyrissjóðakerfið væri á ábyrgð launafólks og atvinnurekenda, þar með talið fyrirkomulag stjórnarkjörs í sjóðunum. Seðlabankinn væri kominn inn á vettvang almennra kjarasamninga með því að skipta sér af reglum um stjórnarfyrirkomulag lífeyrissjóða.“