Netöryggisfyrirtækið Varist hefur tryggt sér 975 milljónir króna í nýtt hlutafé. Fyrirtækið hefur undanfarið þróað nýja lausn sem heitir Hybrid Analyzer en hún greinir nýja og óþekkta vírusa margfalt hraðar og ódýrar en núverandi lausnir á markaði.

Fjármagnið gerir Varist kleift að setja aukinn kraft í áframhaldandi vöruþróun og efla sölu og markaðsinnviði.

„Í dag býður Varist upp á tvær vörur. Okkar hefðbundna vírusvörn snýr að því að safna þekktum vírusum og verjast þeim. Nýja varan snýr að því að verjast óþekktum vírusum,“ segir Hallgrímur Th. Björnsson, framkvæmdastjóri Varist.

Lausnirnar eru í raun innbyggðar í netöryggislausnir og -þjónustur annarra tæknifyrirtækja, sem svo selja þær til sinna viðskiptavina.

„Ég get fullyrt að vírusvörnin hefur til margra ára skannað tölvupóst flestra Íslendinga á hverjum degi í gegnum tölvupóstlausnir þeirra. Sem dæmi um umfang þá skönnum við allt að 400 milljarða skráa á dag fyrir einn viðskiptavin, og uppfærum vírusvörnina 40 sinnum á dag fyrir yfir 3 milljarða endanotenda á tölvupósti um allan heim.“

Byltingarkennd lausn

„Til að verjast nýjum og óþekktum vírusum, sem orsaka stærsta hluta skaðans sem vírusar valda, þá þarf í dag svokallaða „Sandbox“ lausn. Þessi lausn er mjög „klunnaleg“, sein og dýr. Í flestum tilfellum hentar hún einungis þegar skaðinn er skeður eftir netárás og rannsaka þarf „glæpavettvanginn“. Þessi afmarkaði hluti af netöryggismarkaðnum veltir 10 milljörðum dala á ári og fer vaxandi,“ segir Hallgrímur og bætir við að ný lausn félagsins greini óþekkta vírusa margfalt hraðar en núverandi lausnir á markaði.

„Við erum með byltingarkennda lausn sem skannar óþekktar skrár 100-1.000x hraðar en núverandi lausnir. Við höfum þegar hafið innleiðingu á þessari lausn hjá nokkrum viðskiptavinum, en ástæða þess að við fórum núna í þessa hlutafjáraukningu var að keyra á þetta einstaka tækifæri og það forskot sem við höfum núna.“

Margfalt stærri markaður

Saman geta þessar tvær vörur félagsins myndað eina lausn sem greinir bæði þekktar og óþekktar skrár.

„Þegar við förum í þetta verkefni með OK og VEX, var fyrsta hugmyndin að bjarga þessum verðmætum og viðskiptavinum og í raun halda áfram rekstri þessarar einingar óbreyttri. Við sáum þó strax tækifærin á „Sandbox“ markaðnum með nýju vöruna.

Það hafa svo komið upp óvænt tækifæri sem margfalda stærðina á markaðnum fyrir kjarnavöru félagsins. Það hefur verið hröð þróun í átt að svokölluðum „enterprise“ markaði, þar sem við seljum beint, eða í gegnum samstarfsaðila, til stærri fyrirtækja og stofnana.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.