Íslenska netöryggisfyrirtækið Varist hefur stofnað nýtt gagna- og gervigreindarteymi með ráðningu fjögurra sérfræðinga. Það eru þau Helgi Skúli Friðriksson, Hrefna Marín Gunnarsdóttir, Stefán Már Kjartansson og Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson.
Þau munu starfa ásamt Sigurði Skúlasyni, sem hefur verið hjá fyrirtækinu í rúmt ár, við þróun gervigreindarlausna til að styrkja vöruframboð fyrirtækisins.
Varist sérhæfir sig í greiningu og vörn gegn spilliforritum og þjónustar fyrirtækið meðal annar stærstu tæknifyrirtæki heims. Lausnir Varist skanna allt að 400 milljarða skráa daglega samkvæmt félaginu.
Helgi Skúli er með doktorspróf í vélaverkfræði frá Háskólanum í Lundi og hefur mikla reynslu af uppbyggingu gagnainnviða og gagnavísindum. Hann kemur frá Controlant þar sem hann stýrði gagnahögun og hefur einnig starfað sem gagnastjóri hjá Nova. Hann mun leiða nýja gagna- og gervigreindarteymið hjá Varist.
Hrefna Marín er með doktorspróf í rafmagnsverkfræði frá Stanford-háskóla og hefur áralanga reynslu af vöruþróun, rannsóknum og gagnavísindum hjá Marel og Controlant, ásamt að hafa verið lektor við Háskóla Íslands. Hún kemur til Varist sem sérfræðingur í gagnavísindum.
Stefán Már Kjartansson er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur unnið við bakendaforritun, vélnáms- og gagnalausnir hjá Controlant og NEC. Hjá Varist mun hann bera ábyrgð á hönnun og þróun gagnalausna.
Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur reynslu í gagnavinnslu og netöryggi frá Cyren, Parka og Travelshift. Hann tekur við sem sérfræðingur í gagnavinnslu hjá Varist.
„Með nýstofnuðu gagna- og gervigreindarteymi Varist snúum við vörn í sókn og beitum gervigreind til þess að styrkja varnir viðskiptavina okkar. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá svo öfluga einstaklinga til liðs við okkur,” segir Hallgrímur Th. Björnsson, framkvæmdastjóri Varist.