Kazuo Ueda, seðla­banka­stjóri Japans, var afar var­færinn í fram­sýnni leið­sögn sinni sam­hliða vaxta­á­kvörðun bankans í nótt og veikti jenið í kjöl­farið.

„Á meðan ó­vissa ríkir um fram­tíðar­horfur viljum við gefa okkur meiri tíma á meðan hlutirnir róast,“ sagði Ueda á blaða­manna­fundi í Japan en The Wall Street Journal greinir frá.

Japanski seðlabankinn ákvað að halda vöxtum ó­breyttum í 0,25%.

Í beinu fram­haldi af um­mælum Ueda veiktist jenið gagn­vart Banda­ríkja­dal. Einn Banda­ríkja­dalur fór upp í 143,9 jen en stóð í 141,7 jenum fyrir blaða­manna­fundinn. Á­vöxtunar­krafa á tíu ára ríkis­skulda­bréfum féll um 2 punkta í 0,803%.

Japanski seðla­bankinn hækkaði vexti í 0,25% í lok júlí sem olli skamm­tíma­upp­þoti á mörkuðum. Nikkei-vísi­talan féll um 12% í kjöl­farið en náði sér þó á strik strax daginn eftir með 10,2% hækkun.

Ueda hefur sagt að japanski seðla­bankinn sé ó­hræddur við að hækka vexti sé þess þörf. Mikið flökt hefur verið á gengi jensins á móti dal á síðustu vikum vegna yfir­vofandi vaxta­lækkana vestan­hafs.

Á blaða­manna­fundinum í dag sagði Ueda að bankinn sé að í­huga aðra vaxta­hækkun en áður en til þess kæmi verður skoðað hvaða á­hrif launa­hækkanir og aukin neysla séu að hafa á verð­þróun.