Fimm af sjö ávöxtunarleiðum Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri raunávöxtun á árinu 2023 sem sjóðurinn segir verða teljast „varnarsigur í hárri verðbólgu sem var 8% á árinu“. Almenni birti í dag fyrstur lífeyrissjóða landsins yfirlit yfir ávöxtun síðasta árs.

„Þrátt fyrir miklar sveiflur á verðbréfamörkuðum innanlands og erlendis skiluðu blönduð verðbréfasöfn Almenna lífeyrissjóðsins jákvæðri raunávöxtun á árinu 2023,“ segir í frétt á vef Almenna.

Ávöxtunarleiðir sjóðsins voru með jákvæða nafnávöxtun á bilinu 7,4-11,4% í fyrra. Ævisafn I hækkaði mest eða um 11,4% sem jafngildir 3,2% raunávöxtun. Almenni birti eftirfarandi mynd yfir ávöxtun leiðanna.

Mynd tekin af heimasíðu Almenna.
Mynd tekin af heimasíðu Almenna.

„Þrátt fyrir sveiflur í ávöxtun sl. tvö ár er langtímaávöxtun blandaðra verðbréfasafna hagstæð. Þau hafa öll skilað jákvæðri raunávöxtun sl. 5 og 10 ár, mest Ævisafn I sem skilaði 5,4% raunávöxtun að jafnaði sl. 5 ár og 4,7% sl. 10 ár.“

Þess má geta að allar sjö ávöxtunarleiðir Almenna voru með neikvæða raunávöxtun árið 2022 sem var almennt erfitt ár á mörkuðum eftir nokkur hagfelld ár þar áður. Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var neikvæð um tæplega 12% árið 2022 en útlit er fyrir að síðasta ár hafi verið talsvert hagfelldara eins og tölur Almenna bera með sér.

Erlend hlutabréf hækkuðu töluvert en lækkanir heima

Hvað ávöxtun síðasta árs varðar bendir Almenni á að heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hækkaði um 23,8% í dollar eða um 18,7% í íslenskum krónum þar sem krónan styrktist á árinu.

„Töluverðar sveiflur voru á erlendum hlutabréfamörkuðum á árinu. Í upphafi árs varð viðsnúningur eftir lækkanir árið 2022 og tók markaðurinn vel við sér, töluverð hækkun var á heimsvísitölu hlutabréfa fram til loka júlí en næstu þrjá mánuði gekk sú hækkun að einhverju leyti til baka. Síðustu tvo mánuði ársins varð hins vegar skarpur viðsnúningur og hækkaði heimsvísitala hlutabréfa MSCI um rúmlega 16% síðustu tvo mánuði ársins.“

Innlendi hlutabréfamarkaðurinn átti hins vegar undir högg að sækja og lækkaði vísitala aðallista um 0,7% í fyrra, þrátt fyrir 19% hækkun á síðustu tveimur vikum ársins.

Þá hafi innlend skuldabréf skilað neikvæðri raunávöxtun á árinu. Vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 2% og vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára óverðtryggð skuldabréf hækkaði um 3,7%. Verðbólga var hins vegar 8% á árinu. Almenni nefnir í þessu samhengi að stýrivextir voru hækkaðir úr 6% í 9,25% í fyrra.

„Þessar hækkanir höfðu áhrif á innlendan skuldabréfamarkað og hækkaði ávöxtunarkrafa á markaði sem þýðir gengistap fyrir skuldabréf.“

Blandaðar horfur í upphafi nýs árs

Horfur í upphafi árs 2024 eru nokkuð blandaðar að mati Almenna. Lífeyrissjóðurinn vísar í að verðbólga hafi hjaðnað í mörgum löndum og líkur séu á að seðlabankar, t.d. í Bandaríkjunum, gætu byrjað á að lækka stýrivexti eftir hækkunartímabil síðustu ára.

Stríðsátök í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs valdi hins vegar áhyggjum, sérstaklega ef átökin breiðast út til annarra landa. Á Íslandi sé óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi „en framhald þeirra gæti haft nokkur áhrif á hagkerfið“.

„Nú, sem fyrr, er vænlegt fyrir langtímafjárfesta að halda sjó og ávaxta eignir í blönduðum verðbréfasöfnum sem leggja áherslu á góða eigna- og áhættudreifingu.“