Þann 1. september árið 2000 keypti Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, áfengi á netinu fyrstur Íslendinga er vefverslun ÁTVR var opnuð.
Starfsmaður Íslandspósts færði ráðherranum vínið heim að dyrum en bæði ríkisverslunin og fjölmiðlar þess tíma fögnuðu þessari nýjung sem heillaspori, þrátt fyrir yfirlýst markmið ríkisverslunarinnar um að skerða aðgengi í lýðheilsuskyni.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og hefur aukið viðskiptafrelsi hérlendis hrikt í stoðum þeirrar stefnu að ríkisstarfsmenn séu einir til þess bærir að selja vín á veraldarvefnum.
Netverslanir með áfengi eru núna um tíu talsins, sumar eru smáar í sniðum og reknar af einstaklingum eins og Desma eða Ölföng en aðrar eru á vegum fyrirtækja eins og Sante, Heimkaupa eða Costco.
Fyrr í þessum mánuði opnaði ný netverslun með áfengi á léninu veigar.eu en um er aðræða samstarf Hagar Wines og Hagkaups, þar sem fyrrnefnda félagið rekur netverslunina en
Hagkaup annast tiltekna þjónustu, eins og tínslu af lager og afgreiðslu fyrir hönd Hagar Wines.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir eðlilegt að bregðast við augljósri samkeppni á dagvörumarkaði en tekur jafnframt fram að netverslun Haga Wines geri miklar kröfur til kaupenda til að gæta sjónarmiða um aðgengi og lýðheilsu.
Hann segir það engan vendipunkt að Hagar Wines, með stuðningi Hagkaups, hafi ákveðið að taka þátt í samkeppni á þessum markaði heldur urðu vatnaskil í áfengissölu í fyrra.
Áskrifendur geta lesið lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins hér. Þar er finna viðtal við Finn Oddsson, umfjöllun um frumvarp dómsmálaráðherra sem heimilar netverslun með áfengi og dóm Hæstaréttar Svíþjóðar um áhrif netverslana á einkarétt Systembolaget.