Rannsóknir á vegum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) knýja öran framleiðnivöxt hjá hátæknigróðurhúsum og getur það haft mikla þýðingu fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi á næstu árum. Þetta segir Andri Guðmundsson, meðstofnandi Vaxa, sem rekur hátæknigróðurhús á Íslandi og í Svíþjóð.

„Matvælaframleiðsla í geimnum kann að hljóma mjög framúrstefnulega en geimfarar þurfa rétt eins og annað fólk að borða eitthvað. Í dag eru geimfarar ekki bara að borða einhver mauk og gel. Þó að fólk geti fengið alla þá næringu sem það þarf með þeim hætti þá má ekki vanmeta þá ánægju sem fólk fær af því að borða góðan mat. Það væri því sérlega slæmt fyrir andlega heilsu geimfara ef þeir fengju aldrei neitt almennilegt að borða,“ segir hann.

Þá sé frumkvöðlum á borð við Elon Musk fullalvara með að hefja áætlunarferðir til tunglsins, sem auki enn mikilvægi þess að matvælaframleiðsla fari fram í geimnum.

„Ein ástæða þess að Geimferðastofnun Kanada er að setja pening í rannsóknir og uppbyggingu á matvælaframleiðslu í geimnum er einmitt sú að þegar matartengd vandamál í geimnum eru leyst slá þeir um leið tvær flugur í einu höggi, því afskekkt samfélög í Norður-Kanada geta einnig nýtt sér slíkar lausnirnar. Það getur tekið lengri tíma og verið erfiðara að koma mat til smábæja nyrst í Kanada heldur en upp í geim, enda sjaldan þannig veður að hægt sé að komast þangað. Því er hentugt að fara með ræktunarklefa lengst í Norður-Íshaf til að byggja upp framboð af mat fyrir þá sem búa þar, auk þess að skapa vinnu fyrir íbúana. Það er verið að nýta þetta í báðar áttir, þ.e. verið að prófa geimtengdar rannsóknir í Norður-Íshafi og öfugt,“ bætir Andri við.

Hélt erindi í keppni á vegum NASA

Andri tók nýverið þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu tengdri keppninni „Deep Space Food Challenge“ sem haldin er á vegum geimferðastofnana Bandaríkjanna og Kanada. Þar ræddi hann hvernig rannsóknir á ræktun matvæla í geimnum geta nýst við uppbyggingu á betra matvælakerfi á jörðu niðri. Í keppninni keppast fyrirtæki um að koma fram með lausn sem þykir skara fram úr um matvælaframleiðslu í geimnum. Fyrirtækið sem ber sigur úr bítum hreppir, að bandarískum sið, eina milljón dala í verðlaunafé.

„Frumrannsóknir á ræktun matvæla í geimnum knýja mikinn framleiðnivöxt í stýrðum landbúnaði (e. controlled Environmental Agriculture), um þessar mundir. NASA leggur mikla áherslu á slíka tækniþróun til að tryggja geimförum orku og næringu, enda kostnaðarsamt og erfitt að flytja matvæli út í geim,“ útskýrir Andri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.