Vaxtagreiðslur ríkja hafa náð hæsta hlutfalli af landsframleiðslu síðan 2007 og eru nú meiri en útgjöld til varnarmála og húsnæðismála í ríkustu löndum heims. Þetta kemur framí nýrri skýrslu OECD um skuldastöðu ríkja.

Samkvæmt skýrslunni hafa vaxtagreiðslur ríkja innan OECD hækkað úr 2,4% af landsframleiðslu árið 2021 í 3,3% árið 2024.

Þetta er umtalsverð hækkun sem undirstrikar aukna byrði skulda í ríkjum sem hafa aukið lántökur á undanförnum árum, meðal annars vegna viðbragða við fjármálakreppunni 2008 og COVID-19 heimsfaraldrinum.

Carmine De Noia, yfirmaður fjármála- og fyrirtækjamála hjá OECD, segir að þó að skuldabyrðin sjálf sé ekki endilega neikvæð sé mikilvægt að fjárfestingar ríkja stuðli að hagvexti.

„Lántaka verður að auka hagvöxt svo stjórnvöld geti á endanum stöðvað og jafnvel dregið úr skuldahlutfalli,“ segir De Noia.

Vaxtagreiðslur sem hlutfall af landsframleiðslu.

Land 2023 2024
Bretland 3,2% 2,9%
Japan 1,2% 1,3%
Þýskaland 0,9% 1,0%
Frakkland 1,9% 2,1%
Bandaríkin 4,4% 4,7%
Ítalía 3,7% 4,1%
Ísland 4,0%
OECD meðaltal 3,0% 3,3%
Heimild: OECD og Hagstofa Íslands.

Hærri vextir og breytt eignarhald ríkisskulda

Eitt af því sem gerir stöðuna flóknari er hækkun ávöxtunarkrafna ríkisskuldabréfa, sem gerir endurfjármögnun eldri skulda dýrari. OECD bendir á að um 45% af ríkisskuldum OECD-ríkja muni koma á gjalddaga fyrir árið 2027.

„Mikið hefur verið gefið út af skuldabréfum við hagstæð skilyrði, en þau skilyrði hafa versnað,“ segir De Noia.

Þá hefur eignarhald á ríkisskuldabréfum breyst. Þar sem seðlabankar hafa dregið úr neyðarkaupum á skuldabréfum hefur eignarhald þeirra á ríkisskuldum dregist saman um 3 billjónir (e. trillion) dala frá hámarki árið 2021, og búist er við frekari samdrætti um 1 billjón dala á þessu ári.

Þetta þýðir að einkafjárfestar, sem eru viðkvæmari fyrir verðbreytingum, taka meira við sér.

Þessi þróun eykur óvissu og hættu á sveiflum á skuldabréfamörkuðum.

Hækkandi vaxtakostnaður á alþjóðavísu

Vaxtakostnaður hefur hækkað í flestum helstu hagkerfum heims.

Í Bandaríkjunum er hlutfall vaxtagreiðslna af landsframleiðslu 4,7% árið 2024, í Bretlandi 2,9% og í Þýskalandi 1%. OECD varar við að vaxandi skuldir og hækkandi vextir gætu takmarkað möguleika ríkja til að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar, meðal annars í innviðum og loftslagsverkefnum.

Spáð er að lánsfjáröflun þróaðra ríkja muni slá nýtt met árið 2025 og ná 17 billjónum dala, samanborið við 16 billjónir árið 2024 og 14 billjónir árið 2023. Þessi aukna skuldasöfnun hefur vakið áhyggjur um sjálfbærni skulda í löndum eins og Bretlandi, Frakklandi og jafnvel Bandaríkjunum.