Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% í apríl og mun verðbólga hjaðna frá 9,8% niður í 9,1%. Í greiningu sem bankinn sendi frá sér kemur fram að verðbólga hafi náð sínum hæstu hæðum í febrúar síðastliðnum og muni halda áfram að hjaðna á næstu mánuðum.
Helsta skýring á þessari mánaðarhækkun eru sagðar vera verðhækkanir á mjólkurvörum auk hækkana á flugverði. Matvöruverð kemur til með að hækka um 1% og skýrir hækkun á mjólkurvörum um 0,11% af hækkuninni í þeim lið.
Samkvæmt mælingu hækkaði flugverð um 4,5% í mars og spáir bankinn því að sú hækkun í apríl verði um 9,3%, en hækkun á flugverði er algengt á þessum árstíma. Verð á bílum og eldsneyti lækkar einnig aðeins á milli mánaða en þó svo lítið að það mun ekki hafa áhrif á vísitöluna.
Tölur frá íbúðamarkaði virðast hafa komið á óvart þar sem verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða en bankinn gerir ráð fyrir 0,7% hækkun á húsaleigu í apríl.
„Það sem var mjög jákvætt í tölum marsmánaðar var að kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda liði, hjaðnaði á alla mælikvarða nema einn. Þessa horfir peningastefnunefnd Seðlabankans til þegar meta á undirliggjandi verðbólguþrýsting og voru þessar tölur líklega nefndinni talsverður léttir. Ef þessi þróun heldur áfram aukast líkurnar á að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé brátt á enda,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Hagstofan mun birta vísitölu neysluverðs þann 27. apríl næstkomandi.