Íslandsbanki spáir því að stýrivextir verði lækkaðir um 0,25 prósentur við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans þann 19. mars næstkomandi.
Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 7,75% og hafa stýrivextir þá lækkað um 1,5 prósent frá síðasta hausti, gangi spá bankans eftir.
Tæplega 55% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins eru sammála spá Íslandsbanka og telja að vextir verði lækkaðir um 25 punkta.
Rúmlega þriðjungur svarenda telur að lækkunin muni nema 50 punktum. Þá sjá um 5% þeirra fram á óbreytta vexti og tæp 3% spá hækkun vaxta.
Könnunin var send á 271 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudaginn í síðustu viku og bárust 106 svör sem jafngildir 39% svarhlutfalli.
Óbreyttir vextir?
Í greiningu Íslandsbanka segir að stutt sé frá síðustu vaxtaákvörðun sem var í byrjun febrúar. Fátt hafi gerst í millitíðinni sem breyti verulega sýn peningastefnunefndar á hæfilegt peningalegt aðhald.
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndarinnar í febrúar var hlutlaus en varfærin og hljóðaði svo:
„Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað er enn verðbólguþrýstingur til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.“
Í ljósi þróunarinnar síðan í febrúar telur Íslandsbanki því allar líkur á hóflegri vaxtalækkun í næstu viku. Jafnvel gætu nefndarmenn tínt til ýmis rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum.
Þó væntir bankinn þess að stýrivextir verði lækkaðir eitthvað á hverjum ársfjórðungi og að þeir muni standa í 6,5% í árslok. Spá bankans er í takt við markaðskönnun Viðskiptablaðsins sem má lesa nánar um hér.
Vaxtalækkunarferli ljúki með 5,5% vöxtum
Bankinn telur að framan af árinu muni vaxtalækkunin að stærstum hluta vera í samræmi við hjöðnun verðbólgu og batnandi verðbólguvæntingar.
Eftir mitt ár verði hins vegar líklegast komið svigrúm til þess að lækka raunvaxtastigið hægt og bítandi jafnvel þó að verðbólga hjaðni ekki mikið meira á seinni helmingi ársins eða á næstu árum.
„Gangi spár okkar um verðbólgu- og efnahagsþróun eftir í stórum dráttum er þó tæpast svigrúm fyrir mjög lága raunstýrivexti á komandi misserum,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Áætlar bankinn því að vaxtalækkunarferlinu ljúki með stýrivöxtum á bilinu 5,0% - 5,5% um mitt næsta ár.
„Ólíklegt er að vextirnir fari lægra, nema þá að verðbólga verði í eða undir 2,5% markmiði Seðlabankans um alllanga hríð, nú eða þá að eitthvað áfall ríði yfir þjóðarbúskapinn sem kalli fram bakslag í hagþróuninni og leiði til framleiðsluslaka.“