Ef grunnkjör á óverðtryggðum íbúðalánum á breytilegum vöxtum og grunnkjör á óhefðbundnum sparifjárreikningum eru borin saman kemur í ljós að vaxtamunurinn á Íslandi er næstlægstur á Norðurlöndunum. Mun þetta vera ein leið til að skoða mun á innláns- og útlánsvöxtum.
Aðeins Danir eru með lægri vaxtamun samkvæmt skýrslu starfshóps um gjaldtökur og arðsemi viðskiptabankanna þriggja á Íslandi, Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion Banka.
Vaxtamunurinn er 3,3 prósentustig hér á landi en 3,0 prósentustig í Danmörku. Mestur er vaxtamunurinn í Finnlandi og Svíþjóð, á bilinu 4,2-4,3 prósentustig, samkvæmt stöðunni í apríl 2023.
Vaxtasamanburður milli Norðurlandanna
Ísland | |||||
9,2% | |||||
5,9% | |||||
3,3% | |||||
Í skýrslunni segir að þetta sé gagnleg vísbending um að álagning íslensku bankanna í formi vaxtamunar á innlánum einstaklinga og íbúðalánum sé ekki mjög frábrugðin því sem gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum.
Skoraði á bankanna að lækka vaxtamun
Lilja Alferðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skoraði á íslensku bankana fyrir helgi að lækka vaxtamun. Þá var því einnig haldið fram í kjölfar skýrslunnar að vaxtamunur væri mun meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum.
Í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku sagði Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, að þegar rýnt er í tölurnar sést að á sama tíma og vaxtamunurinn tók að hækka hér á landi í fyrra hafi það sama gerst hjá öðrum bönkum á Norðurlöndunum.
„Það segir sig sjálft að þetta er að gerast hjá öllum hinum bönkunum. Vaxtamunur er að aukast á öllum stöðum en það hlýtur að vera tímabundið ástand.“
Hann segir það sé snúið að bera saman íslensku bankana við þá erlendu og spilar það inn í að stýrivextir eru mun hærri hér á landi.
Komið hefur fram í greiningum að það sé auðveldara að auka vaxtamun þegar vaxtastig er hátt og því telur Már einsýnt að vaxtamunurinn muni lækka þegar stýrivextir lækka, miðað við þróunina sem varð 2020 og 2021.
„Það má gera ráð fyrir því að það sé ákveðin töf, að það taki einhverja mánuði fyrir aukinn vaxtakostnað bankanna að koma inn. Það þyrfti kannski að athuga þetta líka í samræmi við það þegar vaxtastig fer aftur að lækka. Þá er kannski raunhæfara að bera saman þennan vaxtamun,“ segir Már.