Langtímavextir hafa hækkað á helstu myntsvæðum heims og valdið því að vaxtamunur við útlönd hefur minnkað síðustu mánuði.
Að mati greiningardeildar Íslandsbanka er þessi minnkandi vaxtamunur samhliða styrkingu krónunnar líklegur til að draga úr áhuga erlendra aðila á að kaupa ríkisbréf í krónum.
Þá mun Peningastefnunefnd trúlega líta til minnkandi vaxtamunar við næstu vaxtaákvörðun en að mati greiningardeildarinnar er þó enn svigrúm til vaxtalækkunar á komandi mánuðum.
Ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisbréfum Bandaríkjanna hefur hækkað um ríflega eina prósentu frá októberbyrjun í fyrra. Krafan, sem er eitt helsta viðmiðið fyrir langtímavexti í Bandaríkjadollar, stendur í um 4,8%.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa langtímavextir í Bretlandi einnig verið að hækka en þar er krafan á tíu ára bréf um 4,9% eftir um 0,9% hækkun.
Á evrusvæðinu hefur krafan á þýsk bréf til tíu ára hækkað um tæplega 0,6%.
„Þessi mikla hækkun á ávöxtunarkröfu erlendis á sama tíma og lítil breyting hefur orðið á langtímagrunnvöxtum hérlendis hefur orðið til þess að vaxtamunur við útlönd hefur skroppið talsvert saman upp á síðkastið,“ skrifar Jón Bjarki.
Á það við bæði um langtímavexti og vexti til skemmri tíma.
Til að mynda hefur munur á ávöxtunarkröfu tveggja ára íslenskra og bandarískra ríkisbréfa minnkað um 1,3 prósentur, gagnvart breskum ríkisbréfum hefur munurinn á tveggja ára kröfu minnkað um 1,5 prósentur og gagnvart þýskum bréfum hefur vaxtamunurinn á þennan kvarða minnkað um 0,9 prósentur frá októberbyrjun í fyrra.
Að mati Jóns Bjarka er líklegt að minni vaxtamunur hafi áhrif á vilja erlendra aðila á íslenskum ríkisbréfum. Þeir tveir þættir sem slíkir aðilar horfa helst til eru stundargengi krónu og vaxtamunurinn á milli þeirra heimamyntar og krónunnar.
Telji þeir krónuna líklegri til styrkingar en veikingar á sama tíma og vextir eru umtalsvert hærri í krónu en heimamyntinni verða kaup á ríkisbréfum í krónum þeim mun álitlegri kostur.
„Minnkandi vaxtamunur verður trúlega lóð á þá vogarskál að mæla gegn stóru vaxtalækkunarskrefi við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 5. febrúar næstkomandi. Þó er rétt að halda því til haga að raunvaxtastig hér á landi er hátt og hefur raunar ekki lækkað að marki undanfarna mánuði þrátt fyrir lækkun stýrivaxta á lokafjórðungi síðasta árs. Við teljum því enn svigrúm vera fyrir lækkun stýrivaxta við komandi vaxtaákvarðanir Seðlabankans,“ skrifar Jón Bjarki