Langtíma­vextir hafa hækkað á helstu mynts­væðum heims og valdið því að vaxta­munur við útlönd hefur minnkað síðustu mánuði.

Að mati greiningar­deildar Ís­lands­banka er þessi minnkandi vaxta­munur sam­hliða styrkingu krónunnar lík­legur til að draga úr áhuga er­lendra aðila á að kaupa ríkis­bréf í krónum.

Þá mun Peninga­stefnu­nefnd trú­lega líta til minnkandi vaxta­munar við næstu vaxtaákvörðun en að mati greiningar­deildarinnar er þó enn svigrúm til vaxtalækkunar á komandi mánuðum.

Ávöxtunar­krafa á 10 ára ríkis­bréfum Bandaríkjanna hefur hækkað um ríf­lega eina pró­sentu frá október­byrjun í fyrra. Krafan, sem er eitt helsta viðmiðið fyrir langtíma­vexti í Bandaríkja­dollar, stendur í um 4,8%.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um hafa langtíma­vextir í Bret­landi einnig verið að hækka en þar er krafan á tíu ára bréf um 4,9% eftir um 0,9% hækkun.

Á evru­svæðinu hefur krafan á þýsk bréf til tíu ára hækkað um tæp­lega 0,6%.

„Þessi mikla hækkun á ávöxtunar­kröfu er­lendis á sama tíma og lítil breyting hefur orðið á langtíma­grunn­vöxtum hér­lendis hefur orðið til þess að vaxta­munur við útlönd hefur skroppið tals­vert saman upp á síðkastið,“ skrifar Jón Bjarki.

Á það við bæði um langtíma­vexti og vexti til skemmri tíma.

Til að mynda hefur munur á ávöxtunar­kröfu tveggja ára ís­lenskra og bandarískra ríkis­bréfa minnkað um 1,3 pró­sentur, gagn­vart breskum ríkis­bréfum hefur munurinn á tveggja ára kröfu minnkað um 1,5 pró­sentur og gagn­vart þýskum bréfum hefur vaxta­munurinn á þennan kvarða minnkað um 0,9 pró­sentur frá október­byrjun í fyrra.

Að mati Jóns Bjarka er lík­legt að minni vaxta­munur hafi áhrif á vilja er­lendra aðila á ís­lenskum ríkis­bréfum. Þeir tveir þættir sem slíkir aðilar horfa helst til eru stundar­gengi krónu og vaxta­munurinn á milli þeirra heima­myntar og krónunnar.

Telji þeir krónuna lík­legri til styrkingar en veikingar á sama tíma og vextir eru um­tals­vert hærri í krónu en heima­myntinni verða kaup á ríkis­bréfum í krónum þeim mun álit­legri kostur.

„Minnkandi vaxta­munur verður trú­lega lóð á þá vogar­skál að mæla gegn stóru vaxtalækkunar­skrefi við næstu vaxtaákvörðun Seðla­bankans þann 5. febrúar næst­komandi. Þó er rétt að halda því til haga að raun­vaxta­stig hér á landi er hátt og hefur raunar ekki lækkað að marki undan­farna mánuði þrátt fyrir lækkun stýri­vaxta á loka­fjórðungi síðasta árs. Við teljum því enn svigrúm vera fyrir lækkun stýri­vaxta við komandi vaxtaákvarðanir Seðla­bankans,“ skrifar Jón Bjarki