Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í 1,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sautján félög aðalmarkaðarins lækkuðu og þrjú hækkuðu.

Hlutabréf Amaroq Minerals, Oculis og Alvotech lækkuðu mest eða um meira en 3%. Amaroq Minerals leiddi lækkanir en gengi málmleitarfélagsins féll um tæplega 4% í fimmtíu milljóna króna viðskiptum og stendur nú í 146 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um 3,4% í 126 milljóna veltu og stendur nú í 1.005 krónum á hlut. Til samanburðar fór dagslokagengi Alvotech í ár lægst í 1.000 krónur þann 9. apríl sl.

JBT Marel hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 0,8% í tuttugu milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 13.200 krónum á hlut og er um 27% lægra en í byrjun árs.