Veðsetningarhlutfall hlutabréfa í Kauphöllinni var 5,37% um áramótin og hefur ekki verið lægra frá því að Nasdaq á Íslandi fór að birta að upplýsingar um slíka skuldsetningu með reglubundnum hætti við árslok 2014.

Tölfræði Kauphallarinnar nær yfir markaðsvirði þeirra hlutabréfa sem eru veðsett í kerfum verðbréfamiðstöðvarinnar deilt með heildarmarkaðsvirði sem um ræðir á viðkomandi dagsetningu.

Á tímabilinu sem tölfræði Kauphallarinnar nær yfir hefur meðalveðsetningarhlutfallið verið um tólf prósent en hún náði síðast að klífa yfir það gildi sumarið 2020. Allar götur síðan hefur veðsetningarhlutfallið verið á niðurleið.

Ekki öll sagan sögð

Þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við eru sammála um að leitun sé að hlutabréfamarkaði í þróuðum hagkerfum sem er jafn skuldsettur og sá íslenski.

Þetta geti bent til þess að markaðurinn eigi slagkraft inni umfram þann meðbyr sem fylgir í kjölfar hagsveiflunnar.

Líklegt sé að skuldsetning vaxi á komandi misserum og haldist í hendur við frekari lækkun vaxta og þeirra tækifæra sem sumir sjá á markaðnum.

Sérlega skuldléttur markaður

Sumir þeirra benda hins vegar á að tölfræði Kauphallarinnar segi aðeins takmarkaða sögu. Hún nái til að mynda ekki yfir framvirka samninga sem og fleiri flóknari fjármálagerninga.

En það breyti þó ekki þeirri staðreynd að sögn þeirra sem blaðið ræddi við að markaðurinn sé sérstaklega skuldléttur um þessar mundir og það ásamt þeirri staðreynd að meðbyr virðist vera á markaðnum kunni að leysa úr læðingi frekari kraft á markaðnum á næstunni.