Púls Media hefur kynnt nýtt auglýsingatæknikerfi sem gerir auglýsendum kleift að nýta rauntíma veðurupplýsingar til að ákveða hvernig auglýsingar eru birtar á vef- og umhverfismiðlum. Veðurtengdu auglýsingarnar eru sérsniðnar til að passa við tiltekin veðurskilyrði sem býr til meira samhengi í skilaboðum til viðskiptavina.
Fyrsti viðskiptavinurinn sem nýtir þessa tækni er Krónan í samstarfi við Birtingahúsið og Brandenburg. Í nýjustu markaðsherferð sinni notast Krónan við dæmigerð íslensk veðurskilyrði á umhverfisskiltum og strætóskýlum.
Til að mynda, þegar rignir þá birta auglýsingaskiltin mann klæddan í regnkápu að grilla kjöt í rigningu ásamt skilaboðunum „Dálítil væta? Til í þetta“.
„Íslenska sumarið er svo óútreiknanlegt og við vildum fanga þann anda í þessari auglýsingaherferð. Með því að sýna ýmsar spaugilegar hliðar af týpísku íslensku sumri í réttu samhengi við núverandi veður náum við að koma á framfæri sérsniðnum skilaboðum, ýta undir vörumerkjavitund og vonandi vekja samtöl,“ segir Daði Guðjónsson, markaðsstjóri Krónunnar.
Auglýsingatæknikerfi Púls býður auglýsendum upp á nokkrar veðurstillingar til að velja úr, þar á meðal vind, rigningu, skýjafar og hitastig. Auglýsendur geta einnig tilgreint staðsetningar þar sem veðurtengdu stillingarnar eiga að gilda.