Heimasíðan thingmenn.is hefur nú uppfært gögnin fyrir komandi kosningar á laugardaginn í samstarfi við tæknifyrirtækið Aranja. Tölfræðin sem þar kemur fram sýnir hversu virkir þingmenn eru og fyrir hverju þeir hafa beitt sér.
Vefurinn byggir á opnum gögnum sem eru aðgengileg á vef Alþingis og eru þau sett fram á skýran og myndrænan hátt.
Þar má nefna mætingu og afstöðu þingmanna í atkvæðagreiðslum, tíma í ræðustól, fjölda frumvarpa sem 1. flutningsmaður og fjölda þingsályktunartillagna. Þá er þingmönnum stillt upp sem samherjum eða mótherjum eftir eins eða ólíkt greiddum atkvæðum og er einnig hægt að skoða gögnin út frá málaflokkum og þingflokkum.
„Vefurinn var stofnaður í kringum alþingiskosningarnar 2016. Hugmyndin kviknaði eftir að ég kynnti mér umfangsmikla gagnaöflun vefs Alþingis, sem veitir aðgang að upplýsingum eins og þingskjölum, ræðu- og atkvæðaskrám. Þrátt fyrir að gögnin séu aðgengileg fannst mér vanta yfirsýn yfir störf þingmanna og þingflokka til að gera gögnin skiljanlegri og gagnlegri fyrir almenning.” segir Bæring Gunnar Steinþórsson, stofnandi vefsíðunnar.
Hann segir að verkefnið hefði aldrei orðið að veruleika án samstarfsaðila hans hjá Aranja, sem hefur meðal annars staðið fyrir hakkaþon-kvöldum. Þar unnu einstaklingar í eigin verkefnum og úr þeim verkefnum mynduðust ýmsar hugmyndir sem urðu að veruleika.
„Það sem kom út úr verkefninu var vefur sem veitir heildaryfirlit yfir störf þingmanna og þingflokka, þ.e. hvernig þeir kjósa (atkvæðaskrár), hvað þeir ræða (ræðuskrár) og hvar þeir leggja fram breytingartillögur (þingskjöl),” bætir Bæring við.