Reykjavíkurborg gefur nú netverjum kost á því að skoða malbikunarframkvæmdir í borginni á vef Reykjavíkurborgar í rauntíma. Framkvæmdirnar eru flokkaðar í þrjá flokka, framundan, í gangi og lokið.
Í tilkynningu segir að hægt sé að skoða framkvæmdirnar á korti og fá síðan nánari upplýsingar með því að smella á ákveðinn stað. Um lifandi gögn er að ræða sem breytast reglulega og gefa mynd af því sem er í gangi í borginni hverju sinni.

Á kortinu er einnig hægt að finna upplýsingar um afnotaleyfi og framkvæmdir í borginni og er sérstök upplýsingasíða fyrir hverja framkvæmd. Í tilkynningu segir jafnframt að enn sé verið að bæta við upplýsingasíðum um framkvæmdir.
Í mars greindi Reykjavíkurborg frá því að malbikað yrði fyrir 1.540 milljónir króna í borginni í sumar. Gert er ráð fyrir að verkefnum ljúki í september á þessu ári. Borgin gerir einnig ráð fyrir að viðhaldsþörf gatna með endurnýjun yfirlaga verði um 1.350 milljónir króna næstu 5-10 árin.