Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingarfélags, vonast til að ný ríkisstjórn hugsi stórt þegar kemur að samgöngumálum, ekki síst þar sem innviðaskuld hér á landi vaxi og vaxi.

„Vegakerfið okkar er að hluta sambærilegt við það sem maður sér í Tansaníu,“ segir Jón Ásgeir í nýrri ársskýrslu Skeljar. Í þessu samhengi má benda á að Skel keypti í fyrra þriðjungshlut í Baridi Group, sem heldur utan um rannsóknarleyfi í Tansaníu til námuvinnslu á ýmsum verðmætum málmum.

Tvöfalda þjóðveginn til Akureyrar og að Vík

Jón Ásgeir segir að á hverju ári sé farið með tæki og tól hingað og þangað um landið og malbikaðir 5-7 kílómetrar á hinum og þessum svæðum. Síðan sé farið aftur árið eftir „og hent í 3-4 km til viðbótar“.

„Nú er spurning hvort ekki sé kominn tími til þess að sýna meiri stórhug í vegaframkvæmdum, t.d. með því að byrja á því að tvöfalda þjóðveg 1 til Akureyrar og að Vík á næstu 5-7 árum.

Í svona stórt verkefni mætti flytja inn stærri tæki og framleiða hvern kílómeter með minni kostnaði, þar af leiðandi auðvelda fjármögnun framkvæmda. Ekkert er því til fyrirstöðu að fjármagna slíkt með einkafjárfestum og t.d. lífeyrissjóðum, eins og heppnaðist svo vel með Hvalfjarðargöngin á sínum tíma“.

Hann telur jafnframt að skoða ætti að byggja upp Kjalveg og gera hann að góðri tengingu milli Suðurlands og Norðurlands fyrir ferðamenn „og bæta aðgengi að stærstu ósnortnu náttúru í Evrópu“.

Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, nefnir einnig innviðaskuldina í sínu ávarpi. Hann segir markmiðið með stofnun Styrkáss, sem Skel á 63,4% hlut í, hafi verið að setja á laggirnar félag sem gæti með afgerandi hætti aðstoðað stjórnvöld við innviðauppbyggingu.