Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almanna lífeyrissjóðsins, gagnrýnir frumvörp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda og víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna í aðsendri grein á Viðskiptablaðinu sem ber fyrirsögnina Þegar pólitísk áhætta raungerist.

Fáir hafi átt von á svo mikilli hækkun

Hvað veiðigjöldin varðar bendir Gunnar á að lífeyrissjóðir séu hluthafar í þeim þremur sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru skráð á hlutabréfamarkað. Áætlað er að lífeyrissjóðir eigi samtals 38% hlut í Brimi, 11% hlut í Ísfélaginu og 24% hlut í Síldarvinnslunni.

Hann vísar í samantekt greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital frá því í apríl þar sem fram kemur að hækkun veiðigjalda leiði til þess að samanlagt verðmat félaganna þriggja lækki um 53 milljarða eða um rúmlega 13%.

Það hafi átt stóran þátt í að markaðsvirði félaganna þriggja hefur lækkað um og yfir 20% í ár.

„Þegar lífeyrissjóðirnir fjárfestu í sjávarútvegsfélögunum þremur mátti þeim vera ljóst að veiðigjöld gætu hækkað miðað við umræður og stefnuskrár einstakra stjórnmálaflokka. Ég held að flestir hafi reiknað með hóflegum hækkunum veiðigjaldanna eða að meiriháttar breytingum yrði dreift yfir langt tímabil. Enginn eða fáir reiknuðu hins vegar með svo mikilli hækkun og á svo skömmum tíma,“ segir Gunnar.

„Forsendur fjárfestinganna eru gerbreyttar og verðmæti þeirra og áætluð framtíðarávöxtun hefur lækkað sem hefur bein áhrif á sjóðfélaga.“

Í greininni er bent á að atvinnuráðuneytið áætli að álagt veiðigjald í kjölfar áformaðra breytinga verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026 sem samsvari hækkun upp á 8,3 milljarða króna eða 74% aukningu.

Hljóti að hugsa sig tvisvar um

Gunnar segir að þegar stjórnvöld geri svo afgerandi breytingar hljóti það að hafa í för með sér endurskoðun á mati á pólitískri áhættu. Áhættustýring lífeyrissjóða verði að reikna með fleiri stórfelldum breytingum og skilgreina ráðstafanir til að minnka fjárhagsleg áhrif þeirra.

Þær geta falist í ýmsum aðgerðum, svo sem endurskoðun á lífeyrisréttindum og á fjárfestingarstefnu.

„Þá hljóta sjóðirnir að hugsa sig tvisvar um þegar rætt er um samstarf við stjórnvöld, til dæmis um fjármögnun á ýmsum opinberum verkefnum og innviðum.“

Lífeyrissjóðir taki við hlutverki almannatrygginga

Gunnar gagnrýnir einnig frumvarp fjármálaráðherra um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna sem bannar lífeyrissjóðum að taka tillit til örorkulífeyrisgreiðslna frá almannatryggingum. Hann segir að verði frumvarpið að lögum sé horfið frá því grundvallarsjónarmiði að enginn skuli vera betur settur fjárhagslega eftir tjón en fyrir.

„Afleiðingar þess verða að örorkulífeyrisbyrði sjóðanna hækkar en á móti lækka ellilífeyrisgreiðslur. Í raun felur frumvarpið í sér þá meginbreytingu að lífeyrissjóðirnir taka við hlutverki almannatrygginga og verða fyrsta stoð örorkulífeyrisgreiðslna hjá þeim sem eru með lágmarkstryggingu hjá lífeyrissjóðunum.

Megintilgangur lífeyrissjóða er hins vegar að taka við iðgjöldum sjóðfélaga og ávaxta til að greiða ellilífeyri.“

Í umsögn Talnakönnunar, sem sér um tryggingafræðilega úttekt fyrir níu lífeyrissjóði, um frumvarpið er bent á að ellilífeyrisgreiðslur einstakra lífeyrissjóða gætu lækkað um allt að 5% til 7,5% ef frumvarpið verður samþykkt.

Gunnar segir að það hafi legið fyrir lengi finna þurfi lausn á tengingu örorkulífeyrisgreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða og að gagnvirkar skerðingar geti ekki gengið. Frumkvæði stjórnvalda að breytingum sé því að einhverju leyti skiljanlegt.

„Það hefði hins vegar verið heppilegt og æskilegt að breytingar hefðu verið undirbúnar í samráði við hagaðila og fundin lausn sem hefur ekki bein áhrif á ellilífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða.“