Veiðihúsið Eyjar við Breiðdalsá og 1.640 hektara jörðin Eyjar eru nú auglýst til sölu. Hlunnindi sem fylgja jörðinni eru 8% hlutdeild í Breiðdalsá sem rennur fram hjá veiðihúsinu, hreindaýraarður og rjúpnaveiði.

Húsið, sem var gert upp árið 2013, er 312 fermetrar og inniheldur átta svefnherbergi, þar af eina svítu. Í húsinu er gufubað og þaðan er útgengt í heitan pott. Samtengt er 122 fermetra starfsmannahús með fjórum svefnherbergjum, eldhúsi og þvottahúsi. Fylgieignir, sem notaðar eru sem geymslur í dag, eru 527 fermetra fjárhús og 151 fermetra hlaða.

Veiðiþjónustan Strengir hefur verið með Breiðdalsá síðustu ár en Ripp Sporting, sem er í eigu Peter Rippin, tekur við ánni á næsta ári, að því er mbl.is greindi frá í vor. Ripp Sporting undirritaði tíu ára leigusamning við veiðifélag Breiðdalsár.

Veiðihúsið Eyjar er í 25% eigu Veiðiþjónustunnar Strengja og 75% eigu danska félagsins Hermitage, sem er í eigu Mona Karen Rasmussen.

© Valhöll fasteignasala (Valhöll fasteignasala)

© Valhöll fasteignasala (Valhöll fasteignasala)