Í hagspá Landsbankans, sem birtist í síðustu viku, segir að áhrif tolla Bandaríkjanna á verðbólguþróun á Íslandi séu óljós.
Þannig gætu hömlur á alþjóðaviðskipti hækkað heimsmarkaðsverð á ýmsum vörum sem veldur aukinni innfluttri verðbólgu á Íslandi sem gæti síðan m.a. leitt til hærri verðbólguvæntinga.
Að sama skapi gæti krónan veikst við það ef ferðamönnum fækkar verulega og ef útflutningsgreinar Íslands verða fyrir miklum tollum í ýmsum löndum.
Á móti kemur gætu tollar dregið úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem Ísland flytur út og þar af leiðandi dregið úr umsvifum í hagkerfinu sem myndi á endanum leiða til minni þenslu.
„Minnkandi eftirspurn Bandaríkjamanna eftir útflutningi annarra landa gæti einnig valdið tilfærslu á útflutningi. Tímabundið offramboð af vörum annars staðar en í Bandaríkjunum lækkar verð, t.d. í Evrópu, og Ísland flytur inn ódýrari vörur en áður,“ segir jafnframt í hagspánni.
Veik króna gæti lagt stein í götu verðhjöðnunar
Ársverðbólga mældist 3,8% í marsmánuði og hefur ekki verið minni frá því í desember árið 2020 þegar hún mældist 3,6%. Þá mælist verðbólga án húsnæðis 2,5%. Mest var ársverðbólgan í 10,2% í febrúar árið 2023, en í upphafi árs 2025 var hún 4,6%.
Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja hafa gefið út hagspár fyrir næstu þrjú ár. Hagspá Íslandsbanka kom út í lok janúar sl., en hagspár Arion banka og Landsbankans komu út fyrr í mánuðinum.
Bankarnir eru á sama máli um að verðbólgan verði tregbreytanleg á næstu mánuðum og að hún verði að meðaltali á bilinu 3,5-3,9% á árinu 2025.
Til samanburðar var ársverðbólgan að meðaltali 5,9% á síðasta ári. Þó að verðbólgan hafi hjaðnað verulega á undanförnum árum muni það taka langan tíma að koma henni aftur í markmið.
Þannig spáir Arion banki því að ársverðbólga verði að meðaltali 3,6% á árunum 2025 og 2026 en að hún verði að meðaltali 3,2% árið 2027. Bendir bankinn á að dregið hafi verulega úr spennu á vinnumarkaði m.a. vegna þétts taumhalds peningastefnunnar samhliða lakari útflutningshorfum.
Þannig hafi hægst verulega á starfafjölgun og atvinnuleysi þokast upp, sem dragi að öðru óbreyttu úr verðbólguþrýstingi og opni dyrnar fyrir frekari vaxtalækkanir. Á móti gæti það lagt stein í götu verðhjöðnunar ef krónan taki að veikjast verulega. Spá Arion banka gerir ráð fyrir að krónan veikist frá og með seinni hluta árs 2025.
Í hagspá Íslandsbanka, sem birt var í lok janúar sl., er sömuleiðis gert ráð fyrir 3,6% ársverðbólgu að meðaltali á þessu ári. Þá spáir bankinn því að hún verði 3% að meðaltali á næsta ári og 3,2% árið eftir.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.