Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að svo virðist sem opinbert markmið ríkisstjórnarinnar sé að veikja samkeppnisstöðu Íslands til að geta síðar fært rök fyrir því að aðild að Evrópusambandinu sé rétt skref fyrir þjóðina.

„Slíkt er ekki hagsmunagæsla fyrir Ísland. Það er pólitísk afstaða sem þjónar öðrum tilgangi en að tryggja störf, verðmætasköpun og lífskjör,“ segir Guðrún í aðsendri grein í Viðskiptablaði vikunnar.

Óttast ekki þjóðaratkvæðagreiðslu

Guðrún segir að ef hefja eigi ferli um aðilda að ESB verði það að gerast með skýru umboði frá þjóðinni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um „framhald viðræðna“ um aðild Íslands að ESB fari fram eigi síðar en árið 2027.

„Ég óttast ekki að þjóðin taki afstöðu í slíku máli, þvert á móti tel ég mikilvægt að það gerist. En það verður að fara fram fyrir opnum tjöldum, með heiðarlegri og yfirvegaðri umræðu um skýra valkosti. Ég hlakka til slíkrar umræðu, en hún þarf að byggjast á því að stjórnvöld setji hagsmuni Íslands í fyrsta sæti,“ segir Guðrún.

„Ábyrg stjórnsýsla krefst þess að við spyrjum í hvert sinn: Hver er ábatinn fyrir íslenskt fólk? Hver er áhættan? Hver er áætlunin?“

Grafi undan trúverðugeika EES-samningsins

Guðrún segir eitt af lykilhlutverkum ríkisvaldsins að verja aðgang þjóðarinnar að erlendum mörkuðum með afdráttarlausri hagsmunagæslu. Hún nefnir í því samhengi áformaða verndartolla Evrópusambandsins á kísilmálm og járnblendi frá Íslandi og öðrum löndum utan ESB.

Þjóðin eigi rétt á því að vita hvernig stjórnvöld verji stöðu fyrirtækja sem flytja út til Evrópu, hvaða skref hafa verið stigin og hver næstu skref verða.

„Þessar fyrirætlanir ganga bæði gegn anda og bókstaf EES samningsins. Í málum sem þessum þurfa stjórnvöld að tala skýrt og af festu, enda eru rök Íslands sterk. Við tökum virkan þátt í innri markaði, spilum eftir sömu leikreglum og aðrir og eigum því sama rétt á hindrunarlausum viðskiptum.

Þegar slíkur réttur er virtur að vettugi skaðar það ekki einungis íslensk fyrirtæki heldur grefur það undan trúverðugleika EES samningsins í heild. Ef við látum málið reka á reiðanum munu aðrir ráða för og við sitjum eftir með lakari samkeppnisstöðu.“

Guðrún segir að sé litið út fyrir tollamálið blasi stærra mynstur við. Ísland eigi að láta til sín taka þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi en slíkt krefjist skýrs mats á mikilvægi mála og óumdeildrar forgangsröðunar.

„Þegar pólitísk orka og fjármunir fara í átök sem snerta ekki afkomu landsmanna, stendur minna eftir til að verja störf, verðmætasköpun og lífskjör hér heima. Þjóðaröryggi okkar byggir á samstarfi innan NATO og traustu bandalagi við vinaþjóðir. Þar þarf málflutningur Ísland að vera afdráttarlaus og skýr, og gæta þess að hvert skref styrki stöðu landsins og veiki hana ekki.“

Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.