Evrópskir fjárfestar sem eiga bandarísk hlutabréf hafa orðið fyrir tvöföldu áfalli þar sem bæði lækkun hlutabréfaverðs og veiking Bandaríkjadals hefur aukið tap þeirra.

Þessi þróun hefur rofið það sem áður var „dyggðahringur“ hækkandi hlutabréfaverðs og styrkingar gjaldmiðilsins, sem hafði verið hagstæður fyrir erlenda fjárfesta, samkvæmt Financial Times.

Á þessu ári hefur S&P 500-vísitalan lækkað um nærri 4% í dölum, en um meira en 8% þegar reiknað er í evrum.

Þetta hefur snúið við fyrri þróun þar sem evrópskir fjárfestar, sem lögðu áherslu á bandarísk hlutabréf, styrktu Bandaríkjadalinn, sem aftur bætti ávöxtun óvarinna hlutabréfafjárfestinga og hvatti til frekari fjárfestinga.

Peter Oppenheimer, aðalhagfræðingur á sviði alþjóðlegra hlutabréfa hjá Goldman Sachs, segir að þessi „dyggðahringur“ sé nú að snúast við.

Hann bendir á að bandaríski markaðurinn hafi fallið meira og að vegna veikingar dollarans hafi áhrifin orðið verri þegar þau eru umreiknuð í erlenda gjaldmiðla.

Á fjórða ársfjórðungi 2024 náðu bandarísk hlutabréf sögulegum hæðum vegna bjartsýni í tæknigeiranum og væntinga um aukinn hagnað fyrirtækja í kjölfar skattalækkana sem Donald Trump hafði lofað.

S&P 500 vísitalan hækkaði þá um 2% í dollurum talið, en um næstum 10% í evrum.

Hins vegar hefur dollarinn veikst verulega á þessu ári þar sem fjárfestar hafa endurskoðað væntingar sínar um áhrif verndarstefnu Trump.

Áður töldu þeir að háir tollar myndu auka verðbólgu í Bandaríkjunum og draga úr vexti annars staðar, sem myndi styrkja dollarann og veikja evruna.

Frá miðjum janúar hefur dollarinn hins vegar fallið þar sem fjárfestar hafa áhyggjur af hagvexti í Bandaríkjunum, á meðan loforð Evrópu um aukin útgjöld til varnarmála hafa aukið bjartsýni á meginlandi Evrópu.

Sumir telja að dýpri breyting sé að eiga sér stað í því hvernig bandarískar eignir eru metnar.

Dollarinn hefur jafnan verið talinn öruggur fjárfestingarkostur í ólgutímum og styrkst þegar slæmar fréttir hafa borist af alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.

Þetta hefur hvatt erlenda fjárfesta til að kaupa bandarísk hlutabréf án þess að verja sig gegn gengisáhættu, þar sem dollarinn virkaði sem höggdeyfir í verðlækkunum.

George Saravelos greiningaraðili hjá Deutsche Bank segir að „áhættuminnkandi eiginleikar óvarinnar dollarasöfnunar hafi gegnt lykilhlutverki í eignadreifingu síðasta áratug“ en bætir við að þetta sé „nú að breytast“.

Hann bendir á að núverandi lækkun á bandarískum hlutabréfum hafi leitt til svipaðs taps fyrir evrópska fjárfesta og miklu dýpri lækkun á Wall Street árið 2022, vegna breyttrar stöðu dollarans.

Ef þetta „fylgnibrot“ milli hlutabréfa og dollarans heldur áfram gætu evrópskir fjárfestar hugsað sig tvisvar um áður en þeir fjárfesta í bandarískum hlutabréfum án gengisvarna, að mati Saravelos. Sumir hafa þegar breytt stefnu sinni.

Rúmlega fimmtungur evrópskra sjóðsstjóra sem svöruðu könnun Bank of America í þessum mánuði sagðist vera undirvigt í bandarískum hlutabréfum, sem er hæsta hlutfall síðan um mitt ár 2023.

Meiri sala erlendra fjárfesta gæti aukið þrýsting á bandarísk hlutabréf, sem féllu í leiðréttingarfasa fyrr í þessum mánuði.