Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að búið sé að eiga óformleg samskipti við Samtök atvinnulífsins og að nú sé tækifæri til að setjast aftur niður við samningsborðið.
„Ég veit ekki hvort það sé komin meiri bjartsýni í loftið en það er allavega alltaf þannig að menn eru að leita leiða.“
Hann segir að nú þurfi að finna hvernig hægt verði að fanga viðfangsefnið með því að ná sameiginlegu markmiði sem snúi fyrst og fremst um að auka kaupmátt launa og ná niður verðbólgu og þar af leiðandi vöxtum. „Forsendurnar ganga út á það,“ segir Vilhjálmur.
Boðað hefur verið til fundar hjá breiðfylkingu stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins og SA hjá ríkissáttasemjara í fyrramálið.
Viðræður strönduðu á kröfum breiðfylkingarinnar um forsendur samninganna og hafa samninganefndirnar ekki fundað formlega síðan 9. febrúar.