Mika Restaurant er sannkallað fjölskyldufyrirtæki í Reykholti þar sem ekki aðeins hjónin Michał og Bożena starfa, heldur hafa börnin og amman líka verið að hjálpa til. Staðurinn opnaði árið 2011 og er þetta því fjórtánda árið sem hann er í rekstri.

Sagan hefst með komu hjónanna til Íslands frá Póllandi en Bożena kom til landsins árið 1997 og Michał ári seinna. Þau bjuggu þá á Flúðum en hafa í raun verið búsett á svæðinu alveg frá því að þau fluttu til Íslands.

Fyrstu árin sinntu þau ýmsum störfum, til dæmis í garðyrkju og íþróttum. Michał vann um tíma hjá Flúðafiski en á endanum fóru þau hjónin að vinna hjá Hótel Flúðum og það var þar sem þau kynntust veitingabransanum.

„Ég og konan keyptum svo hús og þurftum þá auðvitað á aukatekjum að halda, þannig að ég fór til Belgíu að læra að gera konfekt. Eftir það byrjuðum við svo með litla konfektframleiðslu í bílskúrnum hjá okkur,“ segir Michał.

Konfektframleiðslan fór hægt og rólega að aukast og ákváðu hjónin síðan að selja konfektið sitt á Jólamarkaðnum á Flúðum árið 2010. Þau voru þá spurð hvort þau vildu ekki opna kaffihús í tóma rýminu þar sem veitingastaður þeirra situr í dag.

Konfekt frá Mikka

Hugmyndin að kaffihúsinu kviknaði í nóvember 2010 og opnaði staðurinn 8. febrúar 2011. Staðurinn byrjaði með rými fyrir aðeins 25 sæti en þau eru í dag orðin 120 talsins.

Spurður um nafn staðarins segir Michał að það sé tilvísun í nafnið hans og vörurnar sem komu frá honum. „Ég heiti Michał Józefik en var alltaf kallaður Mikki. Þannig fólk sagði alltaf að þetta væri konfekt frá Mikka.“

Kaffihús hafði verið í rýminu á sínum tíma ásamt garð- og ferðabúð áður en Mika opnaði veitingastaðinn, en hann segir að umhverfið á þeim tíma hafi verið allt öðruvísi en það er í dag.

„Ég skal alveg viðurkenna að fyrstu þrjú árin voru ekki auðveld. Það var allt öðruvísi þá og ferðaþjónustan var ekki allt árið. Það voru dagar í miðri viku á haustin og veturna þar sem það komu kannski tvær eða þrjár manneskjur í kaffibolla. Maður stóð vaktina og það dugði ekki einu sinni fyrir laununum.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.