Ríkið hefur frá janúar 2024 alls veitt 3.020 rafbílastyrki upp á samtals 2,5 milljarða króna. Umræddir rafbílastyrkir Orkusjóðs, sem eru á bilinu 400-900 þúsund krónur, voru teknir upp í byrjun síðasta árs.
Fjármálaráðuneytið segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að rafbílastyrkirnir séu eitt dæmi af fjölmörgum ferlum þar sem tekist hefur að nýta tæknina í hagræðingarskyni.
„Má sem dæmi nefna að umsókn um rafbílastyrk á pappírsformi hefði kallað á að lágmarki tvær heimsóknir umsækjanda með gögn til stofnana og afgreiðslutími áætlaður um 20 mínútur á hverja umsókn.“
Stafrænt ferli rafbílastyrkja var samstarfsverkefni Orkustofnunar, Samgöngustofu, Fjársýslunnar og Stafræns Íslands.
