Vélfag hefur opnað fimmtu starfsstöðina á Íslandi sem er staðsett við Njarðarnes 3-7 á Akureyri, þar sem Trésmiðjan Börkur var áður til húsa. Verksmiðjan sem er 2.541,5 fermetrar að stærð mun hýsa framleiðslu, lager og samsetningu auk skrifstofur. Greint er frá þessu í tilkynningu.

Höfuðstöðvar Vélfags að ​Baldursnesi 2 eru í næstu götu frá nýju starfsstöðinni. Nú standa yfir flutningar á framleiðsluvélum yfir nýja húsnæðið. Baldursnesið verður áfram notað fyrir þróun og skrifstofur.

Vélfag var stofnað árið 1995 á Ólafsfirði af þeim Bjarma Arnfjörð Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýr Lárusdóttur. Tilkynnt var í ársbyrjun 2022 að þau hefðu selt meirihluta hlutafjár í félaginu til rússneska útgerðarfélagsins Norebo.

Upphaflega sérhæfði Vélfag sig í þjónustu við fyrirtæki í sjávarútvegi en fljótlega hófu starfsmenn félagsins að þróa og framleiða vélar fyrir fiskvinnslu.

Vélfag velti 548 milljónum króna og hagnaðist um 77 milljónir árið 2022 samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins.

Elvar ráðinn framleiðslustjóri

Gengið hefur verið frá ráðningu Elvars Stefánssonar í stöðu framleiðslustjóra hjá Vélfagi en hann hefur starfað hjá Vélfagi frá árinu 2015. Elvar er vél- og orkutæknifræðingur frá HR auk þess að vera með sveinspróf í rennismíði.

​„Það eru mjög spennandi tímar framundan og að flytja framleiðsluna yfir í stærra húsnæði er í takt við aukinn vöxt Vélfags og velgengni á undanförnum áru,“ er haft eftir Elvari.

Nýja starfsstöð Vélfags að Njarðarnesi 3-7.
© Aðsend mynd (AÐSEND)